Um sleggjudóma og samsæriskenningar

Í Morgunblaðinu í dag svarar Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, grein eftir Vigdísi Hauksdóttur, alþingismann, sem birtist í Mbl. s.l. föstudag, en í þeirri grein staðhæfir Vigdis að með kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs af Seðlabankanum sé verið að þjóðnýta erlendar eignir lífeyrissjóðanna og verið sé að koma skuldum einkabankanna yfir á almenning.

Grein Hrafns Magnússonar, sem er stutt og birtist í miðopnu Morgunblaðsins í dag er á þessa leið:
 
Um sleggjudóma og samsæriskenningar
 
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar undarlega grein í Morgunblaðinu gær, þar sem hún hefur allt á hornum sér að lífeyrissjóðirnir hafi keypt skuldabréf Íbúðalánasjóðs af Seðlabanka Íslands s.l. vor. Um var að ræða skuldabréf sem ríkissjóður Íslands og Seðlabankinn höfðu þá nýlega eignast í kjölfar bankahrunsins í október 2008.
 
Í greininni staðhæfir Vigdis að með þessum kaupum sé verið að þjóðnýta erlendar eignir lífeyrissjóðanna og verið sé að koma skuldum einkabankanna yfir á almenning.
 
Það er alveg á mörkunum að þessi grein Vigdísar sé svaraverð enda byggist hún að mestu á sleggjudómum og samsæriskenningum. Gagnvart almenningi er hins vegar nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:
 
Kjörin  á þessum skuldabréfum voru mjög góð og langtum betri  en bjóðast hér á markaði. Þau eru verðtryggð, að jafnaði til níu ára og ávöxtunarkrafan er 7,2%.
 
Þessi viðskipti munu  bæta tryggingafræðilega stöðu íslenska lífeyriskerfisins og stuðla að hærri lífeyrisgreiðslum en annars hefði orðið. Þó lífeyrissjóðirnir hafi þurft að selja tímabundið erlendar eignir sem nam þessari fjárfestingu munu þessi kaup flýta fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna.
Allt tal Vigdísar um að verið sé að þjóðnýta erlendar eignir er því út í hött. Kaupin eru þvert á móti afar hagstæð og til þess fallin að bæta hag lífeyrisþega sjóðanna.