Um ábyrgð Ríkisútvarpsins og fráleitar fullyrðingar í Silfri Egils.

Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga hefur sent Agli Helgasyni, umsjónarmanni sjónvarpsþáttarins Silfur Egils, athugasemd vegna málflutnings Ragnars Þórs Ingólfssonar um málefni lífeyrissjóða síðastliðinn sunnudag, 30. nóvember. Tilefni viðtalsins er grein sem Ragnar Þór skrifaði og gengið hefur manna á milli á Netinu. Þar er að finna ýmsar fráleitar og rakalausar  fullyrðingar sem furðulegt má telja að Ríkisútvarpið flytji þjóðinni án þess að fara á neinn hátt ofan í sauma á þeim, fjalla á gagnrýninn hátt um málflutninginn eða leita andsvara hjá þeim sem þarna voru bornir þungum sökum.  Víst er að það er ábyrgðarmikil skylda fjölmiðla að upplýsa, útskýra og miðla þekkingu til almenning og sinna jafnframt þannig aðhaldshlutverki sínu.  Það getur hins vegar aldrei verið í þágu upplýstrar umræðu að birta athugasemdalaust dæmalausa þvælu um tiltekin málefni,  í þessu tilviki um starfsemi lífeyrissjóða, og ætla hlustendum og áheyrendum síðan að draga ályktanir af öllu saman!

Hér fer á eftir athugasemd tryggingastærðfræðinga og síðan athugasemd sem Lífeyrissjóður verslunarmanna birtir á heimasíðu sinni um sama mál: 

 

Athugasemd Félags tryggingastærðfræðinga:

 

Sunnudaginn 30. nóvember var Ragnar Þór Ingólfsson gestur Egils Helgasonar í þættinum Silfri Egils. Ragnar setti þar fram furðulegar staðhæfingar um uppsöfnuðu iðgjöldin sem einstakir sjóðfélagar lífeyrissjóða greiða og verðmæti þeirra við 67 ára aldur samanborið við réttindin sem þau veita. Egill virtist gera ráð fyrir að Ragnar mundi sýna einhverjar tölur máli sínu til stuðnings en Ragnar vísaði til heimasíðna lífeyrissjóða og banka en þar gæti fólk komizt að raun um þessi „ósvífnu vinnubrögð“. Hann gat þess ekki að hann byggði útreikninga sína á 8% raunvöxtum en það kemur fram í tilskrifi sem Ragnar hefur dreift á netinu undir heitinu „þjófnaður aldarinnar“, hvorki meira né minna.

 

Tryggingastærðfræðingar eru ábyrgir fyrir útreikningi á svokölluðum réttindatöflum lífeyrissjóða en þar er miðað við tilteknar forsendur um dánarlíkur, örorkulíkur, hjúskaparlíkur og barneignalíkur. Þar er einnig lagt til grundvallar að raunávöxtun sé 3,5% og er það bundið í reglugerð. Ákvörðun um þessa vaxtaviðmiðun var á sínum tíma tekin eftir vandlega skoðun og ekki hefur komið fram nein málefnalega gagnrýni á hana. Okkar verkefni er m.a. að reikna út réttindaávinnslu hvers aldursárs þannig að jafnvægi sé milli núvirðis þess iðgjalds sem greitt er á aldursárinu og núvirðis þeirra lífeyrisgreiðslna sem sjóðfélagarnir öðlast rétt til samkvæmt réttindatöflunni. Það er himinn og haf á milli 3,5% og 8% raunvaxta þegar verið er að skoða 30 - 35 ára ávöxtunartíma að meðaltali. Ein króna verður að rúmum 3 kr.  á 33 árum ef vextir eru 3,5% en séu vextirnir 8% verður krónan að 12 kr. og rúmlega það. Þetta segir allt um það hversu brýnt er að hafa reikniforsendur raunhæfar. Eins og allir vita búum við nú við mjög sérstæðar aðstæður varðandi vexti og sumar lánastofnanir bjóða háa raunvexti til að laða til sín fjármagn en öllum er væntanlega ljóst að þessar aðstæður geta ekki varað lengi og gera vonandi ekki. Undanfarin ár hefur ávöxtun lífeyrissjóða verið verulega umfram 3,5% og það hefur gert sjóðum mögulegt að auka réttindi sjóðfélaga. Það er annað hlutverk tryggingastærðfræðinga að gera árlega athugun á fjárhag sjóðanna sbr. ákvæði 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ef staða sjóðs er góð getur sjóður aukið áunnin réttindi sjóðfélaganna en hins vegar getur þurft að skerða þessi réttindi ef staðan er slæm. Það er alveg ljóst að staða sjóða mun versna mjög á þessu ári, en enn er ekki ljóst hvort einhverjir sjóðir þurfa að skerða réttindi sjóðfélaga.

 

Skrif Ragnars vega í sjálfu sér að starfsheiðri tryggingastærðfræðinga en ekki er gert ráð fyrir eftirmálum hvað það varðar.

 

Bjarni Þórðarson,

formaður Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.

 

  

Athugasemd á heimasíðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna:

 

Á Netinu hefur gengið tölvupóstur þar sem fjallað er með villandi hætti um uppsöfnun iðgjalda sjóðfélaga til lífeyrissjóða og verðmæti þeirra við 67 ára aldur. Af þessu tilefni vill lífeyrissjóðurinn koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

  •         Í útreikningum eru notaðir 8% raunvextir en ekki 3,5% raunvextir sem ákveðnir eru í reglugerð og tryggingastærðfræðingum er gert að nota við útreikninga sína.
  •         Ekki er í útreikningunum tekið tillit til forsendna um dánarlíkur, örorkulíkur, hjúskaparlíkur og barneignalíkur. Þannig greiðir lífeyrissjóðurinn ævilangan ellilífeyrir auk þess sem hann veitir ríkulegan rétt til örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris vegna orkutaps sjóðfélaga eða fráfalls.
  •         Það er hlutverk tryggingastærðfræðinga að gera úttektir á fjárhag lífeyrissjóðanna og byggir vinna þeirra eins og áður segir á reglugerð. Starfsmenn eða stjórnarmenn lífeyrissjóða eiga þar enga hlutdeild.
  •         Mismunur þess að reikna með mismunandi ávöxtun sýnir sig best í að 1 króna verður að 3 krónum á 33 ára tímabili sé reiknað með 3,5% raunvöxtum - en að 12 krónum á jafnlöngum tíma sé reiknað með 8% raunvöxtum.