Staða tryggingadeildar Frjálsa lífeyrissjóðsins er mjög traust en eignir umfram áfallnar skuldbindingar voru 24,0% og eignir umfram heildarskuldbindingar voru 7,3%. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er rekinn af KB banka, skilaði einnig góðri ávöxtun á síðasta ári. Gott gengi á verðbréfamörkuðum og virk stýring sjóðsins skiluðu sjóðfélögum ávöxtun umfram það sem búast hefði mátt við m.v. fjárfestingarstefnu.
Góður árangur skýrist einkum af undir- og yfirvigt einstakra verðbréfaflokka, vali á einstökum verðbréfum og árangursríkri gjaldeyrisstýringu.
Nafnávöxtun Frjálsa 1, sem hefur mest vægi hlutabréfa og er fjölmennasta og stærsta fjárfestingarleiðin, var 15,6% og raunávöxtun 11,0%. Ávöxtun leiðarinnar var 4,5% umfram fyrirfram skilgreinda viðmiðunarvísitölu, sem er ákvörðuð í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Nafnávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins var 17,5% og raunávöxtun 12,8% á kaupkröfu. Staða tryggingadeildar er mjög traust en eignir umfram áfallnar skuldbindingar voru 24,0% og eignir umfram heildarskuldbindingar voru 7,3%.
Hrein eign til greiðslu lífeyris nam í lok árs 44,8 milljörðum og jókst um 9,2 milljarða á milli ára, eða um 26%. Þar af var ávöxtun ársins rúmir 5,7 milljarðar. Iðgjöld til sjóðsins námu um 4,5 milljörðum og jukust um 21% á milli ára. Lífeyrisgreiðslur námu 403 milljónum. Sjóðfélagar voru í lok árs 32.961 og fjölgaði um 2.751 á árinu.