Traust staða Stafa lífeyrissjóðs

Nafnávöxtun allra eigna sjóðsins á árinu 2006 var 15,6% en hrein raunávöxtun eftir frádrátt fjárfestingarkostnaðar og rekstrarkostnaðar nam 9,0% á árinu. Góð ávöxtun skýrist að stórum hluta af markaðshækkun hlutabréfa og veikingu krónunnar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sjóðsins síðustu fimm árin er 8,7% en 7,2% síðustu tíu árin. Við útreikning á sögulegri ávöxtun er meðalávöxtun beggja sjóða lögð til grundvallar.

Þann 1. janúar tók Stafir lífeyrissjóður til starfa. Hann er sameinaður sjóður Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar og byggir því á traustum grunni sjóða sem eiga sér sögu allt frá árinu 1939. Stafir veita einna bestu réttindi meðal lífeyrissjóða fyrir greitt iðgjald.

 

Fyrir sameiningu eigna og skuldbindinga var umframeign deilt út til allra sjóðfélaga Lífiðnar og hækkuðu réttindi þeirra um 16,7%. Réttindi sjóðfélaga Samvinnulífeyrissjóðsins í aldursháðri deild hans voru hækkuð um 20% á sama tíma. Samtals var 5,7 milljörðum króna í umframeign deilt út til sjóðfélaga.

 

Í sjóðnum eiga 51.622 einstaklingar réttindi. Eignir hans nema 75.043 milljónum króna og er hann því í röð stærstu lífeyrissjóða á Íslandi. Eignir sjóðsins umfram heildarskuldbindingar eru 3.397 milljónir króna eða 2,9%. Í ljósi þess að reiknað var með auknum lífslíkum landsmanna sem þyngir skuldbindingar lífeyrissjóða, er þetta sérlega ánægjuleg niðurstaða.

 

Samtals stóðu 1.897 launagreiðendur skil á iðgjöldum fyrir 10.113 einstaklinga til samtryggingardeildar Stafa á liðnu ári og fjölgaði þeim um 1,6% frá fyrra ári. Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins námu 3.257 milljónum króna sem er hækkun um 11,1% milli ára. Þá nutu 3.812 lífeyrisþegar greiðslna úr tryggingardeild að fjárhæð 1.455 milljónum króna. Lífeyrisþegum fjölgar um 9,8% á milli ára eða um 341 lífeyrisþega og greiðslur hækka um 4,1%.

 

Móttekin voru iðgjöld að fjárhæð 304 milljónir króna í séreignardeild sem er hækkun um 12,3% frá árinu áður. Raunávöxtun séreignarleiða á árinu 2006 var sem hér segir:

 

Leið 1 bundinn innlánsreikningur                                    4,2 %

Leið 2 skuldabréf                                                                 6,1 %

Leið 3 skuldabréf og hlutabréf                                          9,8 %

Leið 4 hlutabréf og samsettir fjárfestingarkostir            9,4 %

Leið 5 samtryggingarleið:                                                   9,0 %

 

Rekstrarkostnaður dregst saman milli ára en hann var 0,16% af eignum á árinu 2006 samanborið við 0,18% árið áður. Sé sameiningarkostnaður dreginn frá á árinu 2006 lækkar hlutfallið enn frekar eða niður í 0,14% af eignum.