Tillögur um róttækar breytingar á eftirlaunakerfinu í Noregi.

Sérskipuð nefnd um eftirlaunamál vill gera róttækar breytingar á norska tryggingakerfinu, lengja starfsævina og refsa þeim sem vilja hætta fyrr en aðrir með því að lækka við þá lífeyrinn. Fyrirhugaðar breytingar verða þær umfangsmestu sem gerðar hafi verið síðan 1967 er tekinn var upp opinber grunnlífeyrir fyrir alla landsmenn.

 Meðalaldur Norðmanna sem fari á eftirlaun eða fulla örorku 58 og hálft ár, sem er átta og hálfu ári lægri aldur en gengið er út frá í lögunum um grunnlífeyri.

 Lífaldur hækkar einnig stöðugt, þjóðin er að verða eldri sem merkir að æ færri verða í starfi og einhverjir þurfi að halda kerfinu uppi. Einnig eru öryrkjar orðnir hlutfallslega mun fleiri en áður og því margir sem hætta að vinna fyrir aldur fram. Fólk er líka í námi langt fram á fullorðinsárin sem styttir enn meðalstarfsaldur þjóðarinnar.

 Útgjöld norska ríkisins til eftirlauna- og örorkumála svara nú til um 6% þjóðarframleiðslunnar en verði ekki breyting á mun hlutfallið verða um 18% árið 2050. Gangi tillögurnar eftir munu útgjöld ríkisins til eftirlauna verða um 20% minni árið 2050 en þau verða ef ekkert verður hróflað við kerfinu. Hugmyndirnar um uppstokkun eftirlaunakerfisins hafa verið til umfjöllunar í nefndinni síðan 2001.

 Tillögurnar voru lagðar fram 13. janúar sl. og er þar lögð áhersla á að eftirlaunareglur verði samræmdar fyrir alla launþega. Er ljóst að margir opinberir starfsmenn eru ósáttir við það enda njóta þeir betri lífeyrisréttinda en ýmsir aðrir launþegar.

 Helstu atriðin í tillögum meirihluta nefndarinnar, sem skipuð var fulltrúum stjórnmálaflokkanna, eru þessi:

*Eftirlaun skulu taka mið af tekjum sem fólk hefur haft á allri starfsævinni en ekki eingöngu miðað við 20 tekjuhæstu árin eins og nú. Greiðslur til eftirlaunaþega skulu vera í samhengi við það sem þeir hafa lagt fram til kerfisins og greiðslurnar hækka í samræmi við launaþróun.

 *Öllum Norðmönnum verða auk þess tryggð eftirlaun sem ekki verða lægri en lægstu eftirlaun sem nú þekkjast. Nefndin varð sammála um að vinnuveitendur ættu að greiða ákveðið mótframlag til að hækka lífeyrisgreiðslurnar en skoðanir reyndust skiptar um það hvernig fyrirkomulag ætti að vera á slíkum greiðslum.

*Þeim sem annast börn, sjúklinga, hreyfihamlaða og aldrað fólk án þess að þiggja laun verður umbunað með hærri eftirlaunum.

 *Því lengur sem fólk vinnur fram á elliárin þeim mun hærri eftirlaun fær það. Leyft verður að fara á eftirlaun frá 62 ára aldri en þá verða þau lægri en ella.

 *Til að tryggja fjárhagslegan viðgang kerfisins verða settar reglur um að umfang lífeyris skuli vera í samræmi við ætlaðan lífaldur aldurshóps umrædds lífeyrisþega. Ef lífaldurinn telst hafa hækkað verða menn að vinna lengur til að fá sama lífeyri.

 *Eftirlaun á að ákveða á hverju ári í samræmi við launa- og verðþróun. Mun þessi regla gilda um alla sem fá greidd eftirlaun eftir að breytt skipan tekur gildi. Gert er ráð fyrir að nýtt kerfi verði komið í gagnið árið 2010 en fólk sem fætt er 1950 eða fyrr mun þó fá eftirlaun eftir gömlu reglunum.


[Sjá nánar grein í Morgunblaðinu í dag)