Um þrjár milljónir Breta, 45 ára og eldri, munu neyðast til að fresta starfslokum vegna kreppu og fjárhagsörðugleika eða til þess að safna meiri lífeyri, segir í skýrslu breska trygginga– og lífeyrissjóðafyrirtækisins Prudential.
Nýjar rannsóknir Prudential benda til þess að 9% Breta muni fresta starfslokum vegna fjárhagslegra aðstæðna og áhrifa kreppunnar og að 7% muni fresta starfslokum til þess að auka við lífeyrissparnað sinn.
Af þeim, sem hafa ákveðið að fresta starfslokum, óttast fjórði hver svarandi að hann muni aldrei hafa efni á að hætta alveg störfum vegna þess að kreppan hafi haft svo slæm áhrif á lífeyrissparnað viðkomandi, samkvæmt rannsókn Prudential: Class of 2010.
Um 17% svarenda munu fresta starfslokum um að minnsta kosti 5 ár en ríflega helmingur býst við að fresta starfslokum um 1-5 ár.
Martyn Bogira, yfirmaður iðgjaldatengdra lausna hjá Prudential, segir: „Mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir hvað er í húfi áður en það hættir störfum. Viltu í alvöru vinna fimm ár aukalega, fram yfir þann aldur sem þú getur hætt störfum? Eitt er að vilja að halda áfram vinnu, annað að vera neyddur til þess vegna þess að þú hafir ekki efni á því að hætta. Allir sem vinna fyrir sér ættu strax að byrja að leggja fyrir lífeyrissparnað eða annars konar sparnað, því allar tafir á slíku gætu seinkað því hvenær þeim gefst færi á að hætta störfum.“
Greinin er eftir Sophie Baker og birtist á Pensionsage.com, 22. mars 2010