Þetta er í okkar höndum!

Athyglisverður samhljómur var í erindum sérstakra gesta ársfundar Landssamtaka lífeyrissjóða, Friðriks Más Baldurssonar, forseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, og Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallar Íslands. Báðir sögðu þeir að stjórnvöld og þjóðin sjálf réðu mestu um að koma kröftugum hagvexti af stað og notuðu meira að segja sama orðalagið: „Þetta er í okkar höndum!“

Friðrik Már ræddi um gjaldeyrishöftin og tók saman niðurstöður sínar í lokin:

 

  1. Það er mikilvægt að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst.
  2. Rétt er að taka í upphafi smá og varleg skref en svo er nauðsynlegt og óhætt að hraða ferlinu.
  3. Afnám gjaldeyrishafta byggist fyrst og fremst á því að endurvinna traust umheimsins.
  4. Allar forsendur eru til staðar - þetta er í okkar höndum.

 

Gjaldeyrishöft eru skaðleg, sagði Friðrik Már og nefndi rökstuddi þá fullyrðingu með því að segja að þau

  • dragi úr möguleikum á fjárfestingu innlendra aðila.
  • dragi úr hvötum til erlendrar fjárfestingar á Íslandi.
  • geri alþjóðlegum íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir að starfa hérlendis.
  • stuðluðu að „rentusókn“ og jafnvel spillingu.

 

Einblínt á aflandskrónur

 

Tilgangur gjaldeyrishaftanna var sá að koma í veg fyrir áhlaup á krónuna, einkum í tengslum við svokallaðar aflandskrónur. Það eru fjármunir sem Seðlabanki Íslands skilgreinir sem eign erlendra aðila, „krónur sem bíða eftir því að komast úr landi“, alls um 465 milljarðar króna til helminga í lausu fé og í skammtíma ríkispappírum.

 

Friðrik Már er þeirrar skoðunar að of mikið sé horft til aflandskrónanna í umfjöllun um gjaldeyrishöftin og afnám þeirra því í sjálfu sér sé hér allt laust fé undir. Hann spurði áheyrendur á ársfundi LL: „Hvers vegna skyldu íslenskir fjárfestar halda í íslenskar krónur í stað þess að skipta yfir í erlendan gjaldeyri ef gert væri áhlaup á krónuna?“ og svaraði því sjálfur að erfitt væri að sjá það gerast.

 

Traust á kerfinu skiptir höfuðmáli, bætti Friðrik Már við: „Ef ekki ríkir traust á sjálfu fjármálakerfinu og krónunni má gera ráð fyrir að allt laust fé getið verið undir, um það vil 1.500 milljarðar króna! Gjaldeyrisforðinn og lánalínur, alls 420 milljarðar króna, duga skammt ef áhlaup myndast á krónuna. Hratt útflæði gæti þar að auki valdið fjármálafyrirtækjum lausafjárvanda og raskað gangi mála á skuldabréfamörkuðum.

 

„Það er lögð gríðarleg áhersla á tæknilegar leiðir til að losa um aflandskrónurnar í fjögurra þrepa áætlun Seðlabankans þar að lútandi, þar sem fyrstu þrjú þrepin varða aflandskrónur. Þetta er gert flókið, tímasetningar vantar og lagt er til að lagaheimild um höftin verði framlengd til fjögurra ára. Maður spyr sig hvort þetta geti yfirleitt gengið og missir trúna á það.“

 

Tánni dýpt í markaðslaugina

 

Friðrik Már vék að því að Seðlabankinn hefði fyrr í vikunni kallað eftir tilboðum í 15 milljarða króna gegn greiðslu í evrum sem lið í því að losa höft í fjármagnsviðskiptum og orðaði það svo að bankinn hefði þarna „dýft tánni ofan í.“

 

„Áætlun Seðlabankans er mjög varfærin, ef til vill um of.  Og þetta skref hans nú er afar lítið og raunar bara hálft skref. Engu að síður er mikilvægt að það sé stigið og takist vel svo hægt sé að taka stærri og hraðari skref í framhaldinu.  Augljós galli er á þessari leið, sem sagt sá að hún hefur takmarkað upplýsingagildi. Gengi í útboðunum verður svipað og aflandsgengið, með öðrum orðum of lágt. Óþolinmóðir fjárfestar vilja út og eru tilbúnir til að taka á sig umtalsverð áföll. Hitt má samt hafa í huga líka að þótt 15 milljarðar króna séu lág tala í samanburði heildarfjárhæðina, 465 milljarða króna,  jafngildir þetta þriggja mánaða veltu á gjaldeyrismarkaði!“

 

Hvað ræður því hvort tekst að losa um höftin?

 

Þeirri spurningu svaraði Friðrik Már með því að segja að þar skipti máli að ríkti traust og væntingar um betri tíð:

  • Sjálfbær ríkisfjármál, þ.e. að náð sé tökum á hallarekstri ríkisins og skuldasöfnun snúið við.
  • Lág og stöðug verðbólga.
  • Traust fjármálakerfi.
  • Hagvöxtur og góð fjárfestingartækifæri.
  • Aðgangur að alþjóðlegum mörkuðum opnist.
  • Væntingar um sterkari krónu - „hver kaupir gjaldmiðil sem búist er við að veikist?“

 

Hann fór í framhaldinu yfir framangreind atriði og sagði að ríkisfjármálin stefndu í rétta átt, þrátt fyrir allt. Verðbólga hefði lækkað og væri nálægt markmiðum þar að lútandi en myndi samt aukast eitthvað á nýjan leik á næstu mánuðum. Raungengi krónunnar væri lágt og afgangur á viðskiptum við útlönd. Þetta taldi Friðrik Már sem sagt vera í þokkalegu lagi en svo væri annað í verra standi:

 

„Það hefur gengið mun hægar að vinna úr skuldavanda heimila og fyrirtækja en gert var ráð fyrir og enn ríkir nokkur óvissa um stöðu bankanna. Þá eru áberandi fjandsamleg viðhorf gagnvart erlendum fjárfestingum, sem nauðsynlegar eru bæði sem vaki hagvaxtar og til að styðja við hagvöxt. Þá ríkir óvissa um lyktir Icesave-málsins og líklegt að við sitjum uppi með hana enn um sinn.

 

Niðurstaðan er sú að fjárfestingar og hagvöxtur láta á sér standa, sem er merkilegt í ljósi góðrar samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Og athyglisvert er að þrátt fyrir bullandi viðskiptaafgang, það sem af er ári, hefur krónan veikst en ekki styrkst.“