Gert er ráð fyrir því að ungverskur dómstóll úrskurði að lykilþáttur lagabreytingar, sem fól í sér þjóðnýtingu á hinni skyldubundnu annarri stoð ungverska lífeyrissjóðakerfisins, brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár.
Úrskurðurinn mun koma of seint til að annarri stoð kerfisins verði bjargað en eignirnar, sem nema 10
milljörðum Evra, hafa þegar verið fluttar yfir til ríkisins sem nýtt hefur þær til að greiða upp skuldir og til að fjármagna útgjöld. Engu að síður gæti niðurstaða dómstólsins orðið til þess að þrýsta á framtíðar ríkisstjórnir landsins til að bjóða bætur fyrir hina ólögmætu þjóðnýtingu. Í úrskurðardrögum, sem nálgast mátti á fréttaveitunni www.origo.hu, kemur fram að sú aðgerð að endurskilgreina iðgjöld almannatryggingakerfisins sem "lífeyrisskatt” standist ekki ákvæði stjórnarskrár. Aðgerðin var aðalhvati þess að 2.5 milljónir sjóðfélaga hins almenna lífeyrissjóðakerfis afsalaði eigum sínum í annarri stoð til ríkisins. Hinar þjóðnýttu lífeyrissjóðaeignir eru þungamiðjan í því markmiði stjórnvalda að ná fjárlagahallanum niður fyrir 3% af landsframleiðslu, jafnvel þótt vandinn innan evrusvæðisins fari vaxandi í mið- og austur Evrópu. Verði lokaniðurstaða dómstólsins til samræmis við fyrirliggjandi drög, þá mun það þýða að ekki verður lengur litið á lífeyrisiðgjöld sem skatt, sem þýðir að lífeyrisþegar munu eiga rétt á þjónustu í staðinn fyrir greiðslur þeirra í formi almannatryggingagreiðslna. Þar sem flestir þeirra sem kusu að vera áfram innan almannalífeyrissjóðakerfisins eru enn ungir að árum mun úrskurðurinn einungis hafa áhrif næstu tvo áratugina eða svo. Hins vegar hafa tugþúsundir þeirra sem kusu að færa eignir sínar inn í almannatryggingakerfið lýst því yfir að hafa gert það nauðugir, enda hótað að ella myndu þeir tapa rétti sínum til lífeyrisgreiðslna úr almannatryggingakerfinu. Úrskurðurinn gæti haft þau áhrif að a.m.k. þessi hópur myndi leitast við að sækja bætur til ríkisins.
Byggt á www.ipe.com