Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði byggja á fullri sjóðssöfnun og að jafnvægi sé á milli eigna ásamt núvirtum framtíðariðgjöldum og heildarlífeyrisskuldbindingum. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt samkvæmt lögum að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir er munurinn hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Aðeins þrír lífeyrissjóðir án ábyrgðar annarra voru reknir með meira en 10% fráviki frá þeim mörkum sem lög gera ráð fyrir.
Af þessum þremur sjóðum var hrein eign Frjálsa lífeyrissjóðsins (tryggingardeildar) umfram heildarskuldbindingar jákvæð um 11,5% og þurfti sjóðurinn því að auka réttindi sjóðfélaga en ekki skerða þau. Heildarskuldbindingar eða áfallnar skuldbindingar tveggja sjóða, Lífeyrissjóðsins Hlífar og Eftirlaunasjóðs Sláturfélags Suðurlands, voru hins vegar neikvæðar um meira en 10% í fyrra. Lífeyrissjóðurinn Hlíf (félagar voru einkum vélstjórar í landi) var sameinaður Sameinaða lífeyrissjóðnum frá og með 1. janúar 2002. Í samræmi við sameiginlega niðurstöðu tryggingafræðinga sjóðanna voru áunnin stig sjóðfélaga og lífeyrisþega í Lífeyrissjóðnum Hlíf lækkuð um 10% til að tryggja að tryggingarfræðileg staða sjóðanna yrði hin sama. Eftirlaunasjóður Sláturfélags Suðurlands er hins vegar lokaður sjóður, þ.e. ekki er lengur greitt í hann. Hrein eign sjóðsins umfram áfallnar skuldbindingar var neikvæð um 15% í fyrra og voru lífeyrisgreiðslur lækkaðar um 7 % frá og með 1. júní s.l. Eignir þessara tveggja sjóða, þ.e. Lífeyrissjóðsins Hlífar og Eftirlaunasjóðs Sláturfélags Suðurlands námu aðeins rétt rúmlega 0,5% af heildareignum lífeyrissjóðanna í landinu og sýnir það hlutfall hversu styrk tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna er. Lífeyrissjóðir sem eru með bakábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða banka á skuldbindingum sínum eru undanskilin ákvæðum laga um fulla sjóðssöfnun. Þessir lífeyrissjóðir taka ekki við nýjum sjóðfélögum utan þriggja sem hafa nýtt sér heimild í lögum til að stofna nýjar deildir sem byggja á fullri sjóðsöfnun. Þannig hefur veruleg breyting orðið á starfsumhverfi þessara sjóða miða við það sem áður var enda munu hinar nýju deildir sjóðanna taka á næstu árum við eldra fyrirkomulagi. Í því sambandi má nefna sem dæmi að meirihluti ríkisstarfsmanna greiðir nú þegar í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en sú deild byggir á fullri sjóðssöfnun og er í tryggingafræðilegu jafnvægi. Þá ber ennfremur að vekja athygli á að auk hefðbundinnar greiðslu ríkisins til sjóðsins þá hefur ríkisvaldið á undanförnum áru greitt til viðbótar verulega fjármuni til þess að efla hina fjarhagslega stöðu sjóðsins. Þannig er ljóst að markvisst er unnið að því að byggja upp lífeyrisskerfi með fullri sjóðssöfnun fyrir opinbera starfsmenn.