Stigakerfi með jafnri réttindaávinnslu er stærst.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um rekstur og efnahag lífeyrissjóðanna fyrir árið 2003 er birt yfirlit yfir réttindauppbyggingu sjóðanna. Stigakerfi með jafnri réttindaávinnslu er öflugast að krónutölu eða 63,9% af heild.

 

Heildareignir lífeyrissjóðanna voru taldar 823.977 m. kr. í lok síðasta árs. Réttindauppbygging sjóðanna var þessi um síðustu áramót í fjárhæðum:  

 

Heildareignir í stigakerfi með jafnri réttindavinnslu, þ.e. óháð aldri sjóðfélaga nam 526.236 m. kr. eða 63,9% (64,5%) af heild. Tölur innan sviga sýna hlutfall í lok árs 2002. Stærsti sjóðurinn í þessum hópi er Lífeyrissjóður verzlunarmanna.

 

Heildareignir í aldursháðu stigakerfi, þ.e. iðgjöld gefa mismunandi réttindi eftir aldri sjóðfélagans, eru 64.622 m. kr. eða 7,8% (7,5%) af heild. Stærsti sjóðurinn í því kerfi er Lífeyrissjóðurinn Lífiðn.

 

Heildareignir í hlutfallskerfi, þ.e. lífeyrir er ákveðinn hluti af launum, eru 166.231 m. kr. eða 20,2% (20,6%) af heild. Stærsti sjóðurinn í því kerfi er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, B-deild.

 

Í séreign námu heildarreignir um síðustu áramót 66.889 m. kr. eða 8,1% (7,3%) af heild. Þar er Frjálsi lífeyrissjóðurinn stærstur.