Stjórnir Lífeyrissjóðs lækna og Almenna lífeyrissjóðsins hafa undirritað viljayfirlýsingu um að stefna að sameiningu sjóðanna frá og með 1. júlí n.k. Sameinaður lífeyrissjóður verður 6. stærsti lífeyrissjóðurinn með um 24 þúsund sjóðfélaga og heildareignir um 51 milljarð.
Tilgangur með sameiningunni er að lækka kostnað og auka áhættudreifingu. Með því móti mun hæfi sjóðsins til þess að standa við lífeyrisskuldbindingar sínar aukast.
Viljayfirlýsing sjóðanna byggir á samkomulagi um eftirfarandi atriði:
1. Áunnin lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði lækna og samtryggingarsjóði Almenna lífeyrissjóðsins haldast óbreytt.
2. Nýr samtryggingarsjóður verður með nýju fyrirkomulagi sem gerir kleift að aðskilja fjárfestingaráhættu lífeyrisþega og annarra sjóðfélaga.
3. Nafn sameinaðs lífeyrissjóðs verður Almenni lífeyrissjóðurinn.
4. Aðild að sjóðnum verður opin en sjóðurinn er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögumanna, lækna, tæknifræðinga og tónlistarmanna.
5. Sameinaður sjóður mun bjóða ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins. Stjórn sjóðsins mun skoða hvort ástæða sé tilað bjóða fleiri ávöxtunarleiðir.
6. Sjóðurinn mun endurskoða lánareglur sjóðfélagalána.