Stapi lífeyrissjóður hefur höfðað mál á hendur Fjármálaeftirlitinu og krafist þess að ákvörðun um að leggja dagsektir á sjóðinn verði dæmd ógild.Fjármálaeftirlitið lagði í byrjun þessa árs 200 þúsund króna dagsekt á Stapa lífeyrissjóð. Ástæðan er ágreiningur um túlkun á lögum með tilliti til ákvæða í leiðbeinandi tilmælum sem eftirlitið hefur sett um rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila. Ágreiningur aðila er einkum tæknilegs eðlis, þ.e. hann lýtur að túlkun ákveðinna lagaákvæða og hvaða réttaráhrif leiðbeinandi tilmæli frá FME hafa. Það er mat Stapa að FME sé hvorki nauðsynlegt né heimilt að beita dagsektum í þessu ágreiningsefni og hefur Stapi því ákveðið leita til dómstóla til að fá niðurstöðu um þetta álitaefni.