Stærsti lífeyrissjóður Bandaríkjanna CALPERS (The California Public Employees’ Retirement System) hefur í hyggju að leiða hóp lífeyrissjóða, sem munu sameiginlega lögsækja fjarskiptafyrirtækið WorldCOM, stjórnendur þess svo og endurskoðunarfyrirtækið Arthur Andersen.
CALPERS, sem er með heildareignir um 149 milljarða dollara, er talinn hafa tapað mest bandarískra lífeyrissjóða á viðskiptum með verðbréf í WorldCOM eða um 590 milljónir dollara. New York Stet Common Retirment Fund, sem er með eignir um 112 milljarða dollara, hefur tapað rúmlega 300 milljónum dollara vegna viðskipta með verðbréf í WordCOM. Flestir þessara lífeyrissjóða eru svokallaðir fastréttindasjóðir, þ.e. áunnin lífeyrisréttindi reiknast sem hlutfall af lokalaunum, og eru þessi sjóðir reknir með bakábyrgð hins opinbera. Þrátt fyrir það þá ábyrgjast stjórnvöld aðeins lágmarkslífeyri frá sjóðunum, en lífeyrissjóðurinn sjálfur bætir við réttindin svo framarlega sem vel árar á verðbréfamörkuðunum. Þótt tap lífeyrissjóðanna á WorldCOM sé e.t.v ekki mikið í samanburði við heildareignir þessara sjóða, þá er talið að það muni samt sem áður hafa einhver áhrif þegar kemur að greiðslu viðbótarlífeyris umfram þann grunnlífeyri, sem stjórnvöld ábyrgjast. Við þetta er svo að bæta að WorldCOM. hefur óskað eftir greiðslustöðvun og verður krafa þar um lögð fram í gjaldþrotadómstóli á Manhattan í New York. Um er að ræða stærsta greiðsluþrotsmál í sögu Bandaríkjanna en fyrirtækið vonast til að afla um 2 milljarða dala til að geta haldið áfram starfsemi meðan á greiðslustöðvuninni stendur.
Heimild m.a. Finanical Time Mandate 15. júlí 2002.