Verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga hefur lokið gerð skýrslu um nýskipan almannatrygginga. Gerðar hafa verið tillögur til skemmri tíma sem margar komu til framkvæmda á árinu 2008 en í þessari skýrslu eru útlistaðar tillögur um heildstæða framtíðaruppbyggingu lífeyriskerfisins. Meginatriði stefnunnar er að einfalda almannatryggingakerfið mikið, með fækkun lífeyrisflokka og uppbóta. Þannig er lagt til að einn meginflokkur lífeyris með samræmdar reglur komi í stað þriggja (grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilis- uppbótar) sem nú eru með ólíkar reglur og viðmið.
Skýrslan var að stórum hluta unnin áður en upphæðum einstaka lífeyrisþátta almannatrygginga var breytt 1. júlí s.l., með sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna fjármálakreppunnar. Þær breytingar rekast ekki á þær meginlínur sem lagðar eru í meðfylgjandi tillögum þó einstaka upphæðir breytist tímabundið. Meginatriði tillagnanna er sú stefna sem mörkuð er til lengri tíma og tillögur um einföldun kerfisins sem mælt er með að verði innleiddar sem fyrst með ritun nýrra almannatryggingalaga.
Lögð er áhersla á að áfram verði haldið með endurgerð almannatryggingakerfisins þrátt fyrir tímabundnar efnahagsþrengingar, enda þurfi einföldun almannatrygginga ekki að kosta aukin útgjöld, heldur geti hún leitt til sparnaðar og betri þjónustu með bættri skilvirkni. Þá sé hægt að ná fram hækkun frítekjumarka, eins og t.d. 30 þúsund króna frítekjumarki á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega, með tilfærslum innan kerfisins, þannig að greitt verði fyrir það með auknum skerðingum hjá þeim sem hafa lífeyrissjóðstekjur yfir 270 þúsund krónum á mánuði. Hvort slíkar skerðingar eigi að ná til grunnlífeyris er hins vegar álitamál sem taka þurfi afstöðu til. Þá séu úrbætur á sviði örorku- og endurhæfingarmála líklegar til að skila miklum langtímasparnaði og fyrirbyggja djúpstæðari og erfiðari afleiðingar kreppunnar á hag þjóðarinnar til lengri tíma.
Ef nauðsynlegt reynist að skera niður útgjöld á sviði velferðarmála vegna fjármálakreppunnar, er mikilvægt að val leiða rekist ekki á framtíðarstefnuna í uppbyggingu kerfisins.
Skýrsla Verkefnisstjórnar um nýskipan almannatrygginga