Á stjórnarfundi Landssamtaka lífeyrissjóða, þann 9. maí 2003, skipaði stjórnin sérstaka starfsnefnd til að fjalla um örorkulífeyrismál sjóðanna. Að mati nefndarinnar, sem nú hefur lokið störfum, er engin ein auðveld lausn á vaxandi örorkulífeyrisbyrði lífeyrissjóðanna, heldur er viðfangsefnið margslungið og flókið og leita þarf margra leiða til úrlausnar vandamálinu. Markast niðurstöður nefndarinnar af þessari skoðun.
1. Nefndin telur mjög mikilvægt að endurskipuleggja og styrkja starfsendurhæfingu hér á landi, m.a. með því að auka framboð á henni og hafa sveigjanlegt skipulag sem bregst fljótt við breytingum á vinnumarkaði. Lífeyrissjóðirnir þurfa að koma að skipulagningu og fjármögnun sameiginlegs starfsendurhæfingarkerfis með miðstöð starfsendurhæfingar, þar sem unnt verði að meta endurhæfingarþörf eða vinnufærni og vísa í endurhæfingarúrræði þegar við á. Kanna þarf sérstaklega hvort slík fjármögnun sé heimil samkvæmt núgildandi lífeyrissjóðalögum og ef svo er ekki að beita sér fyrir því að slík heimild fáist með lagabreytingu. Fjármögnun skilvirkrar starfsendurhæfingar lækkar örorkulífeyrisbyrði lífeyrissjóðanna og er því góður fjárfestingakostur fyrir þá.
2. Stjórnvöld, sveitarfélög og frjáls félagasamtök þurfa að auka og efla forvarnir eftir því sem tök eru á enda sé slíkt talið þjóðhagslega hagkvæmt til að minnka líkur á sjúkdómum síðar á starfsævinni. Efla þarf vinnuvernd og slysavarnir.
3. Mjög mikilvægt er að auka samstarf við sjúkrasjóði stéttarfélaga og grípa þannig nógu snemma inn í endurhæfingarferil sjóðfélagans. Því fyrr sem gripið er til skilvirkra úrræða þeim mun meiri líkur eru á því að sjóðfélaginn geti hafið launaða vinnu á ný. Koma þarf á samstarfi lífeyrissjóða og sjúkrasjóða stærstu stéttarfélaganna.
4. Vinna þarf að skilvirkari og vandaðri vinnubrögðum við undirbúning örorkulífeyrisúrskurða, en nokkur brögð hafa verið að því að úrskurðir hafa verið ótraustir vegna ófullnægjandi upplýsinga. Starfsnefndin fagnar þeim rammasamningi sem Landssamtök lífeyrissjóða hafa gert við hóp lækna varðandi mat á orkutapi og telur að samningurinn hafi leitt af sér vandaðri vinnubrögð.
5. Athuga þarf hvort breyta þurfi lífeyrissjóðalögunum nr. 129/1997, þannig að heimilt sé að hafna greiðslu örorkulífeyris, ef orkutap hefur varað skemur en í eitt ár. Jafnframt og samhliða þurfa stjórnvöld að hækka sjúkradagpeninga almannatrygginga.
6. Að mati nefndarinnar þarf að draga úr langtímaatvinnuleysi, m.a. með því að styrkja starfsendurmenntun og atvinnumiðlanir.
7. Heimilt verði að draga skaðabætur fyrir örorku af völdum slysa frá örorkulífeyri sjóðanna. Til þess þarf breytingu á skaðabótalögum.
8. Huga þarf að breytingum í samþykktum eða lögum lífeyrissjóða varðandi framreikningsreglur vegna örorkulífeyris með það í huga að þrengja reglurnar. Ákvæði 4. gr. lífeyrissjóðalaganna um lágmarkstryggingarvernd geta þó sett skorður varðandi mismunandi réttindi til elli- eða örorkulífeyris. Það atriði þarf að skoða sérstaklega.
9. Skoða þarf hvort um sé að ræða vanmat varðandi tryggingafræðilega athugun á örorkulífeyrisbyrði lífeyrissjóðanna, en almennt er stuðst við danskar örorkulíkur með allt að 30% lækkun. Nauðsynlegt er að Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga vinni upp íslenskan staðal með örorku- og endurhæfingarlíkum.
Nefndin leggur til við stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða að hafin verði samvinna við hagsmunaaðila og stjórnvöld til að hrinda þessum tillögum í framkvæmd.
Nefndin var þannig skipuð: Arnar Sigurmundsson, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, sem var formaður nefndarinnar, Árni Guðmundsson, Lífeyrissjóði sjómanna, Haukur Hafsteinsson, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Lífeyrissjóðnum Framsýn. Með nefndinni starfaði framkvæmdastjóri LL, Hrafn Magnússon.
Skýrsluna er að finna í heild sinni á heimasíðu Landsamtaka lífeyrissjóða undir kaflanum “Greinar”.