Hrein raunávöxtun lífeyrissjóða á síðasta ári var neikvæð um 3%. Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði árið 2002. Helstu niðurstöðutölur skýrslunnar eru þær að hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2002 nam 678,9 milljörðum króna samanborið við 644,7 milljarða í árslok 2001. Aukningin er 5,3% sem samsvarar 3,2% raunaukningu miðað við vísitölu neysluverðs.
Ráðstöfunarfé samkvæmt sjóðstreymi á árinu 2002 nam samtals 253,7 milljörðum samanborið við 181,5 milljarða árið á undan. Hrein raunávöxtun miðað við neysluverðsvísitölu var –3% en var -1,9% árið 2001. Iðgjöld milli ára jukust lítillega úr 62,7 milljörðum á árinu 2001 í 67 milljarða á árinu 2002. Gjaldfærður lífeyrir var 22,2 milljarðar 2001 en var 25,8 milljarðar árið 2002.
Séreignasparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila hefur vaxið úr 30,6 milljarðar í árslok 1999 í 58,9 milljarða í árslok 2002. Uppsafnaður séreignasparnaður hefur að meðaltali vaxið um 25% á ári frá árslokum 1999 til ársloka 2002 og var um 8,2% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2002. Langstærstur hluti uppsafnaðs séreignarsparnaðar í árslok 2002 var í vörslu lífeyrissjóða eða 44,3 milljarðar króna.