Skýrsla FME um ársreikninga lífeyrissjóða 2003 komin út.

Fjármálaeftirlitið hefur nú sett á heimasíðu sína, www.fme.is, skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2003. Á heimasíðunni er jafnframt að finna excel skjal sem innheldur talnaefni skýrslunnar. Í skýrslunni, sem tekin er saman af Fjármálaeftirlitinu, er að finna ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2003 ásamt upplýsingum unnum úr öðrum fyrirliggjandi gögnum hjá Fjármálaeftirlitinu. Efni skýrslunnar er sambærilegt því sem birt hefur verið í fyrri skýrslum Fjármálaeftirlitsins um sama efni en framsetningu skýrslunnar var breytt lítillega í fyrra og er sú framsetning óbreytt í ár.

 Í árslok 2003 voru starfandi lífeyrissjóði alls 50 en í árslok 2002 var 51 lífeyrissjóður starfandi.

 Af framangreindum 50 lífeyrissjóðum taka 11 þeirra ekki lengur við iðgjöldum, og eru því fullstarfandi sjóðir 39. Af 50 (39) lífeyrissjóðum teljast 37 (28) vera lífeyrissjóðir án ábyrgðar annarra en 13 (12) lífeyrissjóðir með ábyrgð annarra.

 Á árinu 2003 var fjöldi virkra sjóðfélaga í samtryggingardeildum 172.017 og 98.165 í séreignadeildum. Fjöldi lífeyrisþega í samtryggingardeildum var 62.144 og 10.051 í séreignadeildum.

 Helstu niðurstöðutölur skýrslunnar eru þær að hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2003 nam 824,0 ma.kr. samanborið við 678,9 ma.kr. í árslok 2002. Aukningin er 21,4% sem samsvarar 18,2% raun­aukningu miðað við vísitölu neysluverðs.

 Ráðstöfunarfé samkvæmt sjóðstreymi á árinu 2002 nam samtals 273,2 ma.kr. samanborið við 253,7 ma.kr. árið á undan. Iðgjöld milli ára jukust lítillega úr 67,0 ma.kr. á árinu 2002 í 73,6 ma.kr. á árinu 2003.

 Gjaldfærður lífeyrir var 28,7 ma.kr. 2003 en var 22,2 ma.kr. árið 2002.

 Verulegur viðsnúningur hefur orðið á ávöxtun lífeyrissjóða en hrein raunávöxtun miðað við neysluverðsvísitölu var 11,3% en var -3,0% árið 2002, -1,9 árið 2001 og -0,7 árið 2000. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ára var 3,5% og meðaltal sl. 10 ára var 5,4%. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir hreina raunávöxtun síðustu 10 ára.




 Séreignasparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila í árslok 2003 nam 83,1 ma.kr. samanborið við 58,9 ma.kr. í árslok 2002. Séreignasparnaður í heild nam um 10% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2003. Langstærstur hluti uppsafnaðs séreignasparnaðar í árslok 2003 var í vörslu lífeyrissjóða sem voru hreinir séreignasjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 eða 57,5 ma.kr. Sjóðirnir stofnuðu síðan samtryggingardeildir fyrir iðgjöld til lágmarkstryggingaverndar á árinu 1999 í samræmi við ákvæði laganna. Í kjölfar þessara sjóða koma vörsluaðilar aðrir en lífeyrissjóðir sem voru með 16,2 ma.kr. í sinni vörslu í árslok 2003 og að lokum aðrir lífeyrissjóðir með 9,4 ma.kr. í vörslu. Iðgjöld til séreignalífeyrissparnaðar hækkuðu lítilega úr 14,2 ma.kr. í 15,9 á árinu 2003. 

Hér fyrir neðan má sjá þróun eigna í séreignasparnaði eftir vörsluaðilum.




 Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða hefur batnað verulega á milli ára (samanburðartölur frá fyrra ári eru í sviga).

 Í árslok 2003 var staða 24 (32) samtryggingardeilda af 43 (44) án ábyrgðar neikvæð en engin deild var þó með halla yfir 10% (4), 11 (19) voru með halla á bilinu 5%-10% og 13 (9) voru með halla á bilinu 0%-5%.

 Staða 19 (12) deilda var jákvæð og voru þær með afgang á bilinu 0,1%-8,6%. Þeir lífeyrissjóðir sem eru með meiri halla en 10% samkvæmt árlegri tryggingafræðilegri úttekt þurfa að breyta samþykktum sjóðsins þannig að jafnvægi náist. Hafi sjóður verið með neikvæða stöðu á bilinu 5%-10% samfellt í 5 ár ber að breyta samþykktum til að ná jafnvægi á ný.




 Lítil breyting er á stöðu sjóða sem eru með ábyrgð annarra milli ára en verulegur halli er nánast á öllum þeim sjóðum/deildum og brúar ábyrgð viðkomandi aðila það sem á vantar. Samtryggingardeildir lífeyrissjóða með ábyrgð annarra voru samtals 16 í árslok 2002 og var halli þeirra á bilinu 5,9% - 93,4%. Ein deild var í jafnvægi.

 Athygli skal vakin á því að skýrslan verður aðeins birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins og því ekki fjölrituð. Nánari upplýsingar veitir Sigríður Ómarsdóttir í síma 525 2700.