Skýrsla FME: Staða lífeyrissjóðanna mjög góð.

Fjármálaeftirlitið www.fme.is hefur gefið út  skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2007. Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, lækkaði töluvert á milli ára og var um 0,5% á árinu 2007 samanborið við um 10% árið 2006. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár var hins vegar 9,1% og meðaltal sl. 10 ára var 5,9%. Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna er einnig mjög góð. 

7% raunaukningum á eignum sjóðanna.
Um 13% aukning var á eigum lífeyrissjóðanna á milli ára og námu heildareignir þeirra tæplega 1.700 milljörðum króna samanborið við um 1.500 í árslok 2006. Samsvarar þetta um 7% raunaukningu miðað við vísitölu neysluverðs.

Fækkun lífeyrissjóðanna.
Í árslok 2007 voru 37 starfandi lífeyrissjóðir samanborið við 41 árið 2006. Sú fækkun er tilkomin vegna sameininga sjóðanna og er talið að sú þróun muni halda áfram. Á sama tíma hafa sjóðirnir verið að stækka og eflast og eru 10 stærstu lífeyrissjóðirnir með um 80% af heildareignum lífeyriskerfisins.

Mikil hækkun iðgjalda.
Iðgjöld lífeyrissjóðanna hækkuðu um 52% á milli ára eða úr 96 milljörðum króna í árslok 2006 í tæplega 146 milljarða króna í árslok 2007. Meginástæða þessarar miklu hækkunar er talin vera vegna hækkunar lágmarksiðgjalda til lífeyrissjóðanna úr 10% í 12%, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997, sem tók gildi 1. janúar 2007. Útgreiddur lífeyrir var 40 milljarðar árið 2006 en var rúmlega 46 milljarðar árið 2007.

Vaxandi séreignarsparnaður.
Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2007 jókst um 20% og nam 238 milljörðum króna samanborið við 198 milljarða í árslok 2006. Séreignarsparnaður í heild nam um 14% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2007. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 25,7 milljörðum króna í 32,6 milljarðar króna á árinu 2007, eða um 27%.

Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna traust.
Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum er yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ná jafnvægi milli eigna og skuldbindinga. Sjö deildir lífeyrissjóða án ábyrgðar voru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu í árslok 2007 samanborið við 10 deildir í árslok 2006. Þeir lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags og banka eru undanþegnir ákvæðum laganna sem fjalla um jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða.