Skattlagningu á lífeyrissjóði mótmælt ítrekað

Ríkisstjórnin leggur til að Alþingi samþykki að skattleggja lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki um samtals 3,5 milljarða króna í ár og annað eins á næsta ári til að fjármagna tímabundna vaxtalækkun húsnæðislána. Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði á aðalfundi samtakanna í gær að þessum skattlagningaráformum hefði ítrekað verið mótmælt af hálfu lífeyrissjóða. Þess í stað vildu sjóðirnir fjármagna sinn hlut með hagnaði af til dæmis viðskiptum í tengslum við fyrstu skref í að aflétta gjaldeyrishöftum.

Lífeyrissjóðirnir hafa ítrekað andstöðu sína við skattheimtuna en lagt jafnframt áherslu á að þeir muni standa við sitt í þessu máli á eigin forsendum. Stjórnvöld tilkynntu þá að þau gætu ekki beðið með að tryggja fjármagn vegna vaxtaniðurgreiðslnanna og lögðu til lögfestingu skattheimtunnar í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokölluðum bandormi, sem mælt var fyrir á Alþingi í fyrri viku.

 

Helgi Magnússon, stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verslunarmanna, kvaddi sér hljóðs um þetta mál á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða og sagði að hér ætlaði ríkið að brjóta mikilvægt prinsipp með því að leggja í fyrsta sinn skatt á lífeyrissjóði. Hér væri lagt út á hættulega braut en þar að auki sýndi reynslan að „tímabundir skattar“ hefðu ríka tilhneigingu til að verða varanlegir eða í það minnsta býsna lífseigir.

Lífeyrissjóðir að hasla sér völl í orkugeiranum?

Það kom fram hjá Arnari Sigurmundssyni, í skýrslu stjórnar til aðalfundar LL, að viðræður nokkurra lífeyrissjóða, um kaup á fjórðungshlut í HS Orku hf., væru komnar á lokastig og kæmi til kasta sjóðstjórnanna á næstu dögum að ákveða hvort ráðist yrði í þá fjárfestingu. 

Þá eru hafnar formlegar könnunarviðræður vegna hugsanlegrar aðkomu lífeyrissjóða að eignarhaldi og/eða fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar, sem Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að undanfarin ár.

Hreyfing í viðræðum við skilanefndir

Arnar upplýsti að á allra síðustu vikum hefði nokkuð miðað í viðræðum lífeyrissjóða og skilanefnda bankanna um stöðu og uppgjör gjaldmiðlavarnasamninga sjóðanna. Þessar viðræður hafa staðið yfir með hléum allt frá bankahruni.

Stærsta fyrirtækjasamsteypan

Afkoma Framtakssjóðs Íslands var mjög góð á árinu 2010. Formaður LL sagði að endurskipulagning fyrirtækja, sem sjóðurinn fjárfesti í, væri í góðum farvegi og sama gilti um fyrirtæki sem væru að fara í söluferli innan- eða utanlands.

Sextán lífeyrissjóðir stofnuðu  Framtakssjóð Íslands í desember 2009 til að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins eftir hrun. Sjóðurinn er orðinn stærsta fyrirtækjasamsteypa landsins.

Úttektarskýrsla í haust

Enn má nefna úr skýrslu stjórnar LL á aðalfundinum að nú stefnir í að þriggja manna nefnd, sem skipuð var til að gera úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvörðunum og lagalegu umhverfi lífeyrissjóða í aðdraganda bankahrunsins, skili ekki niðurstöðum fyrr en í haust. Nefndin starfar með Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómara, í forsæti. Ráðnir hafa verið þrír menn í fullu starfi til að vinna að úttektinni og umfang verkefnisins er orðið mun meira en áætlað var í upphafi.

Samþykkt var í gær að leggja sérstakt gjald á lífeyrissjóðina á árinu 2011 til að standa undir kostnaði við starfsemi úttektarnefndar.

Hér er skýrsla Arnar Sigurmundssonar. til aðalfundar Landssamtaka lífeyrissjóða, í heild sinni.