Skattlagning inngreiðslna í lífeyrissjóði ekki til bóta

Landssamtök lífeyrissjóða eru andvíg hugmyndum um að inngreiðslur í lífeyrissjóði verði skattlagðar í stað þess að skatturinn sé innheimtur við greiðslu lífeyris eins og viðgengist hefur frá upphafi.  

Stjórn samtakanna fjallaði um málið í tilefni af tillögu til þingsályktunar þar að lútandi þar sem meðal annars er gengið út frá því að kerfisbreyting í skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna geti aflað ríkissjóði allt að 40 milljörðum króna án þess að skerða ráðstöfunartekjur launamanna og eftirlaunafólks. Stjórnin telur að þegar á heildina er litið geti hún ekki mælt með slíkum breytingum sem lið i ráðstöfunum við endurreisn efnahagslífsins og bendir í því sambandi á eftirfarandi:

1.     Styrkur og megineinkenni lífeyriskerfis Íslendinga er sá að hver kynslóð stendur undir eigin lífeyri með sparnaði í stað þess að velta vandanum yfir á næstu kynslóðir, líkt og sumar þjóðir gera. Um víða veröld er horft til íslenska lífeyriskerfisins sem fyrirmyndar, þessa svokallaða þriggja stoða kerfis sem Alþjóðabankinn mælir með að tekið verði upp sem víðast. Stoðirnar þrjár eru almannatryggingar, lífeyrissjóðir og séreignarsparnaður.

2.    Stórfelldar breytingar á grunnforsendum lífeyriskerfisins eru mjög til þess fallnar að veikja tiltrú á kerfinu, jafnvel þó hugsaðar séu til skamms tíma þegar erfiðleikar steðja að. Íslenska lífeyriskerfið, sem byggist á sjóðsöfnun, stuðlar að því að gera fyrirtækin samkeppnishæfari en ella af því þau þurfa ekki að afla verðmæta til að standa undir risavöxnum lífeyrisútgjöldum sem fylgja því að Íslendingar eldast hlutfallslega, rétt eins og aðrir Vesturlandabúar, með tilheyrandi álagi á eftirlaunakerfin.

3.     Ef af kerfisbreytingunni verður munu ráðstöfunartekjur lífeyrissjóða minnka og sjóðirnir verða því ekki jafn burðugir og áður til að fjármagna nýsköpun í atvinnulífi, uppfylla lánsfjárþörf ríkis og sveitarfélaga og byggja upp fjármálamarkaðinn til lengri tíma litið.

4.    Skattlagning inngreiðslu í lífeyrissjóði er andstæð þeirri meginreglu Evrópusambandins að lífeyrir skuli vera skattskyldur en hvorki iðgjöld né fjármagnstekjur. Í lauslegri könnun Landssamtaka lífeyrissjóða í fimmtán ESB-ríkjum kom í ljós að einungis í tveimur þeirra er skattur innheimtur af iðgjaldi (inngreiðslu í lífeyrissjóð). Í hinum þrettán ríkjunum er skattur innheimtur af lífeyri líkt og hér á landi og það er einmitt fyrirkomulag sem framkvæmdastjórn ESB mælir eindregið með að öll aðildarríkin tileinki sér. Framkvæmdastjórnin bendir á að samræmt fyrirkomulag skattheimtu lífeyris greiði fyrir því að launafólk geti farið land úr landi á Evrópska efnahagssvæðinu, enda sé þannig bæði komið í veg fyrir tvísköttun lífeyris og að lífeyrir sé greiddur út án skattlagningar.