Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagður er til 10,5% skattur á laun starfsmanna banka, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga. Hugmyndir um þessa skattlagningu komu fyrst fyrir sjónir almennings þegar fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Landssamtök lífeyrissjóða lýsa andstöðu sinni við þessari skattlagningu enda liggur ljóst fyrir að hún mun rýra réttindi lífeyrisþega. Þau rök sem tilgreind eru fyrir skattlagningunni eiga síst við um lífeyrisþega sem hafa þurft að taka á sig skerðingar í kjölfar bankahruns. Verði frumvarpið að lögum eru sjóðfélagar að taka á sig enn frekari skerðingu með skattlagningu frá ríkinu. Einnig er fyrir þinginu frumvarp sem ætlað er að skerða val launþega til að leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.
Samkvæmt núgildandi löggjöf hafa launþegar val um að leggja fyrir í viðbótarlifeyrissparnað allt að 4% af launum en til stendur að skerða það niður í 2%. Landssamtök lífeyrissjóða (LL) gagnrýna harðlega þessi áform um skattlagningu lífeyrissjóða og um lækkun frádráttarbærs iðgjalds í séreignarlífeyrissparnað.
Á heimasíðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er að finna ágætis grein um frumvörpin og tilvísanir í umsagnir Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvörpin.