Fáeinir áhugamenn um skuldavanda heimilanna hafa beint spjótum sínum að lífeyrissjóðum sínum í von um vinsældir. Öll er sú umræða rammskökk. Munum að þeir sem skulda eru líka í lífeyrissjóðum. Þegar kreppan verður liðin hjá munu þeir aftur líta bjartsýnir fram á veginn í ljósi þess sparnaðar sem þeir eiga þar.
Þannig kemst Ragnar Önundarson, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Framtakssjóðs Íslands, að orði í ágætri grein í Morgunblaðinu í gær.
Grein Ragnars birtist hér í heild sinni:
Sérkennileg umræða um lífeyrissjóði
Fáeinir áhugamenn um skuldavanda heimilanna hafa beint spjótum sínum að lífeyrissjóðum sínum í von um vinsældir. Öll er sú umræða rammskökk. Munum að þeir sem skulda eru líka í lífeyrissjóðum. Þegar kreppan verður liðin hjá munu þeir aftur líta bjartsýnir fram á veginn í ljósi þess sparnaðar sem þeir eiga þar.
Í byrjun árs 2010 var talið að tæp 19% hefðu tapast af eign Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í hruninu og er það minna en á horfðist í fyrstu. Sé tekið tillit til þess taps sem varð vegna þess að kröfuröðinni var breytt með neyðarlögunum má álykta að rúm 15%-stig af þessum 19 hafi verið á áhrifavaldi sjóðsins. Bankar töpuðu 65-70%. Er því ólíku saman að jafna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafði aukið réttindi sjóðfélaga í áföngum frá árinu 1997 um nær 20% að raungildi. Á miðju þessu ári voru 10% tekin til baka með almennri skerðingu, sem er miður. Eftir stendur samt 9% raunhækkun lífeyris. Þegar litið er til þess hildarleiks sem fámennur hópur fákunnandi fjárglæframanna efndi til má jafnvel halda því fram, að þessi útkoma sé furðu góð, í ljósi þess að lífeyrissjóðir eiga kröfur á afar marga.
Lífeyrissjóðir leita nú fjölbreyttra leiða til að endurheimta glataða ávöxtun. Ein þeirra er að stofna Framtakssjóð Íslands. Þessi almenningseign á að vera sá kjölfestufjárfestir sem kemur félögunum aftur á markað og í hendur nýrra eigenda til framtíðar. Honum er ætlað að taka við fyrirtækjum sem bankar hafa fengið í fangið og orðið að afskrifa á. Hlutverk hans er svo að vinna enn frekar úr málum, bæta reksturinn, auka verðmætin og selja loks félögin í fyllingu tímans. Þeir sem blogga og skrifa með svörtu galli hafa óskapast yfir því að keypt séu félög sem hafa átt í erfiðleikum. Einnig þetta snýr á haus, það eru einmitt slík félög sem mest er upp úr að hafa að endurskipuleggja.
Fjárhagslegt sjálfstæði
Stærð lífeyrisjóðanna í heild nálgast nú 1.900 milljarða króna. Af eignum þeirra eru nálægt 550 milljarðar erlendis. Sparifé landsmanna í þeim, innan lands og utan, er styrkur okkar. Það olli mestu um að við erum að standa gífurlegt fjármálaáfall af okkur, betur en sumar Evrópuþjóðir. Aðeins Hollendingar og Svisslendingar standa okkur jafnfætis hvað lífeyrissparnað snertir, en flest Evrópuríki eru með gjaldþrota gegnumstreymiskerfi. Sparifé í bönkum skiptir líka miklu máli. Hefði það allt verið rifið út hefði lánsfjár- og greiðslumiðlun landsins lamast og atvinnulífið með. Ábyrgð ríkissjóðs á innlánum var knýjandi nauðsyn og það að gera þau að forgangskröfum var neyðarrréttur, sem kom í veg fyrir gjaldþrot ríkisins. Brýnt er að þessu verði ekki breytt í fyrra horf. Innlán eiga hvarvetna að verða forgangskröfur m.v. þá áherslu sem lögð er á að þau séu trygg. Þessi aðgerð olli lífeyrissjóðum hins vegar tjóni eins og fleirum og er það ekki á þeirra ábyrgð.
Vaxtarstefna á ný
Sumir hagfræðingar, einkum hinir rammpólitísku, eru þeirrar skoðunar að best sé að láta hrun með öllu afskiptalaust. Bara lofa öllu að hrynja til grunna því rústirnar muni reynast frjór jarðvegur sem upp úr spretti brátt fjölskrúðugur gróður nýs atvinnulífs. Þessi leið hefði vissulega losað okkur við „freistnivandann“ sem felst í því að bankar hjálpi slæmum fyrirtækjum í samkeppni við góð. Meðalið má samt ekki vera svo kröftugt að sjúklingurinn deyi. Það hefði verið harðbrjósta hagfræði sem er ekki beitt nokkurs staðar og allra síst í hagkerfi sem er lítið og í opnu sambandi við nálæga vinnumarkaði. Landflóttinn hefði orðið gífurlegur og staðið í vegi batans síðar. Okkur var nauðugur sá kostur að stjórnvöld gripu inn í. Af því leiðir freistnivandinn, sem enn hefur ekki fundist lausn á.
Stjórnvöld taka ríkisútgjöldin nú fantatökum eins og við mátti búast, eftir að þau fóru úr böndum í þenslunni. Í kjölfarið verður strax að koma vaxtarstefna sem byggir á að kostir landsins verði nýttir. Ekkert er í vegi þess að Ísland verði á ný svæði vaxtar og velmegunar, jafnvel þó hagþróun á Vesturlöndum verði slök. Nýting orku í sátt við landið, ferðaþjónusta og hreinustu matvæli og vatn veraldarinnar eru auðlegð sem við erum nú þegar öfundsverð af. Sundrungin ein getur komið í veg fyrir velgengni okkar.
Raunhæfar leiðir
Nú hafa nokkrir skuldakóngar fundið það út að 3,5% ávöxtunarviðmiðun lífeyrissjóðanna sé vandamál, ekki þurfi annað en að lækka hana með handafli, þá sé allur vandi leystur. Þetta hlutfall er sú ávöxtun umfram launaþróun sem eignir lífeyrissjóða eru taldar gefa í framtíðinni. Ef við lækkum þetta hlutfall í útreikningum á stöðu sjóðanna þarf augljóslega meiri eignir í hlutfalli við skuldbindingar til að standa undir lífeyri sjóðfélaga. Lækkun á þessari viðmiðun mundi því strax kalla á meiri almenna skerðingu allra lífeyrisréttinda í landinu. Vandséð er að það yrði farsæl aðgerð að kalla með þessu fram vaxtalækkun fyrir fjölmarga sem eru í skilum, til þess að þeir sömu muni síðar búa við skertan lífeyri. Með öllu er óvíst, jafnvel ólíklegt, að lækkunin kæmi þeim sem eru í þroti til góða. Sá hópur á þann kost vænstan að fara í gegnum skuldaaðlögun eða gjaldþrot. Komið hefur fram að mjög fáir hafa nýtt sér skuldaaðlögun, sem kemur á óvart. Það er bjarnargreiði að telja fólki trú um að til séu einhverjar töfralausnir. Hættum því öllu tali um óraunhæfar leiðir, hvetjum til þeirra raunhæfu og stöndum vörð um lífeyrissjóðina.