Séreignarsparnaður er ekki laust fé.

Íslendingar eiga 250-300 milljarða króna í séreignarsparnaði, þar af eru um 80% í vörslu séreignarsjóða hjá bönkunum þremur: Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum. Rætt hefur verið um að heimila fólki aðgang að séreignarsparnaði til þess að mæta greiðsluerfiðleikum. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um fyrirframgreiðslu á séreignarsparnaði með litlum takmörkunum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkistjórnar er einnig kveðið á um fyrirframgreiðslu á séreignarsparnaði og því líklegt að lagt verði fram stjórnarfrumvarp þess efnis.

Þessar upplýsingar koma fram í grein í Morgunblaðinu í dag eftir Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins,  Marinó Örn Tryggvason, forstöðumann eignastýringar fagfjárfesta hjá Kaupþingi og Tryggva Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Íslenska lífeyrissjóðsins.

Greinarhöfundar  skilja þau sjónarmið að í ljósi efnahagsástandsins geti möguleg útgreiðsla séreignarsparnaðar hjálpað sjóðfélögum í greiðsluerfiðleikum. Hins vegar leggja þeir  áherslu á að sjóðfélögum verði ekki mismunað með nýjum lögum. Fjárfestingarstefna séreignarsjóða sé ákvörðuð með hliðsjón af áætluðum binditíma fjárins, ef stórum hluta sjóðfélaga er skyndilega heimilað að losa sparnað sinn er hætt við að sala eigna rýri hlut allra sjóðfélaga.

Mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að séreignarsparnaður er ekki laust fé, með því móti myndi hann ekki ávaxtast. Samkvæmt núgildandi lögum sé sjóðfélögum heimilt að hefja úttekt séreignarsparnaðar við 60 ára aldur og hafa fjárfestingar séreignarsjóða tekið mið af því. Megnið af séreignarsparnaði sé bundinn í verðbréfum. Til þess að hægt sé að greiða séreignarsparnað út þurfi fyrst að breyta honum í laust fé með sölu verðbréfa.

Tillögur um fyrirframgreiðslu á séreignarsparnaði þurfi að taka mið af því að ekki sé hægt að greiða séreignarsparnað út nema búið sé að selja verðbréf sem fjárfest hefur verið í.  Til þess að hægt sé að selja fjárfestingar og breyta í laust fé þurfi einhver kaupandi að vera til staðar. Í dag sé seljanleiki á verðbréfamörkuðum lítill sem enginn og því verulegum vandkvæðum bundið að selja fjárfestingar sjóðanna.

Ef opnað er fyrir útgreiðslu á séreignarsparnaði án þess að hugað sé að því að breyta fjárfestingum í laust fé sé hætta á að fjárfestingar sjóðanna lækki, þó að ekki takist að selja nema lítinn hluta þeirra. Raunveruleg hætta sé á að eignaverð myndi lækka verulega og ekki væri hægt að greiða sjóðfélögum séreign sína út. Inneign allra sjóðfélaga myndi skerðast, óháð því hvort þeir óski eftir fyrirframgreiðslu.

Ef greiða ætti út 10% af séreignarsparnaði er líklegast að seldar verði þær eignir sem hægt sé að breyta í laust fé (einkum ríkisskuldabréf) og aðrir sjóðfélagar sitja þá eftir með breytt eignasafn.

Mögulegar breytingar þurfa því að taka mið af seljanleika eigna og jafnræðis meðal sjóðfélaga.

Þá telja greinarhöfundar að hugmyndir um fyrirframgreiðslu séreignarsparnaðar séu erfiðleikum bundnar. Opnunin getur leitt til þess að eignaverð lækki með tilheyrandi tjóni fyrir heimili og fyrirtæki. Ef vilji stjórnvalda sé engu að síður að opna á úttekt á séreignarsparnaðar sé mikilvægt að fara varlega. Þannig mætti hugsa sér að byrja á að opna sjóðina með verulegum takmörkunum og dreifa útborgunum á 12 mánuði eða lengur. Hætta sé á að mikil opnun geri það að verkum að sjóðirnir muni geta greitt minna út heldur en ef opnað yrði fyrir útgreiðslur með verulegum takmörkunum.

Landssamtök lífeyrissjóða taka undir öll megin sjónarmið í greininni og hvetja stjórnvöld að fara varlega við tillögugerð varðandi opnun séreignarsparnaðarins.

Sjá greinina hér.