Heildarsamtök atvinnurekenda og launamanna í Hollandi sömdu 7. júní s.l. um að hækka eftirlaunaaldur úr 65 í 66 ár 2020, í ljósi þess að lífslíkur Hollendinga hafa aukist líkt og flestra annarra þjóða sem búa við þokkalega velmegun. Jafnframt felst í samkomulaginu að endurskoða skuli á fimm ára fresti hvort eftirlaunaaldur skuli hækka enn frekar.
Samtök á vinnumarkaði í Hollandi höfðu áður reynt að semja um málið en viðræðurnar strönduðu í það skiptið. Ríkisstjórn landsins brást þá við með því að leggja til að eftirlaunaaldurinn yrði færður upp í 67 ár 2025 en síðan slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu og örlög hugmynda ríkisstjórnarinnar voru þar með sjálfkrafa ráðin. Þegar á reyndi enn frekar tók samtökum atvinnurekenda og launafólks hins vegar að ná saman um niðurstöður.
Í nýja samkomulaginu er kveðið á um innbyggðan hvata í hollenska eftirlaunakerfinu á þann veg að fólki verði umbunað fyrir að fara á eftirlaun síðar en það getur lögum samkvæmt. Jafnframt verða eftirlaun tengd launavísutölu í framtíðinni og það segja aðstandendur samkomulagsins að eigi fyrst og fremst að gagnast láglaunafólki á almennum markaði og einyrkjum.
Stuðst við IPE-fréttaþjónustuna