Glitnir hf. og tólf lífeyrissjóðir ásamt undirsjóðum þeirra hafa náð samkomulagi um skuldauppgjör. Um er að ræða rammasamkomulag sem felur í sér að hver lífeyrissjóður um sig og Glitnir hf. munu gera upp kröfur sem aðilar eiga hvor á annan með sambærilegum hætti. Undir samkomulagið falla allar kröfur aðila, þar með taldar kröfur vegna gjaldmiðlavarnasamninga sem gerðir voru til að draga úr gengisáhættu í eignasöfnum lífeyrissjóðanna. Þó eru undanskildar ágreiningskröfur sem varða víkjandi eða höfuðstólstryggð skuldabréf, þar sem lífeyrissjóðirnir gera kröfur á Glitni umfram það sem slitastjórn hefur samþykkt. Samkomulag er um að vísa þeim ágreiningi til úrlausnar dómstóla.
Samningaviðræður um uppgjör gjaldmiðlavarnasamninga hafa staðið yfir frá árslokum 2008. Í heildina er áætlað að fjárhagsleg áhrif rammasamningsins á stöðu lífeyrissjóðanna séu innan þeirra marka sem varúðarfærslur í ársreikningum þeirra gera ráð fyrir. Þetta er þó mismunandi milli sjóða, þar sem nokkrir þeirra geta tekjufært hluta af varúðarfærslu en aðrir þurfa að auka við frá því sem áætlað var. Skýrist það af mismunandi samsetningu krafna og skuldbindinga einstakra lífeyrissjóða.
Samkomulagið er mikilvægt þar sem það eyðir óvissu um eignir og skuldir aðila sem að öðrum kosti hefði þurft að útkljá með íþyngjandi og langvarandi málarekstri fyrir dómstólum.