Samkeppniseftirlitið hefur sett ítarleg skilyrði fyrir kaupum Framtakssjóðs Íslands slhf. (FSÍ) á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. (Vestia).
Eru skilyrðin sett í því skyni að draga úr röskun á samkeppni sem getur stafað af eignarhaldi FSÍ á þeim atvinnufyrirtækjum sem sjóðurinn öðlaðist yfirráð yfir með kaupunum.
Með kaupum FSÍ á Vestia öðlaðist FSÍ yfirráð yfir Teymi hf., Húsasmiðjunni hf., Plastprenti hf. og Icelandic Group hf. Í viðskiptunum felst jafnframt að seljandi Vestia, NBI hf. (Landsbankinn), öðlast fjórðungshlut í FSÍ.
Samkeppniseftirlitið hafði á fyrri hluta árs 2010 komist að þeirri niðurstöðu að yfirtökur NBI á Teymi, Húsasmiðjunni og Plastprenti röskuðu samkeppni og setti yfirtökunum skilyrði í því skyni að koma í veg fyrir þá röskun. Með sama hætti var yfirtaka NBI/Vestia á Icelandic Group til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu, en þeirri skoðun var ekki lokið þegar kaup FSÍ á Vestía voru tilkynnt.
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að yfirráð Framtakssjóðsins á framangreindum fyrirtækjum geti að óbreyttu raskað samkeppni og að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir það með því að setja skilyrði fyrir yfirtökunni. Þannig telur Samkeppniseftirlitið að yfirráðin kunni að takmarka samkeppni á þeim mörkuðum sem viðkomandi atvinnufyrirtæki starfa. Þá geti eignarhald NBI á hlut í sjóðnum raskað samkeppni á viðkomandi mörkuðum og valdið misvægi í samkeppni á fjármálamarkaði.
Sérstaklega sé horft til þess að eigendur Framtakssjóðsins, þ.e. lífeyrissjóðir og NBI, og þar með sjóðurinn sjálfur, hafi mjög sterka stöðu í íslensku atvinnulífi við núverandi aðstæður.
„Þetta skapar m.a. hættu á óæskilegri valdasamþjöppun og blokkamyndun sem takmarkað getur samkeppni til lengri tíma litið. Þá getur þessi skipan mála haft óeðlileg áhrif á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sjálfra," segir Samkeppniseftirlitið.