Áfallnar skuldbindingar Sameinaða lífeyrissjóðsins umfram eignir voru 23 milljarðar króna og heildarskuldbindingar umfram eignir voru 26,1 milljarður og var tryggingafræðileg staða sjóðsins í lok síðasta árs samkvæmt því neikvæð um 13%. Að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins hefur stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins ákveðið að leggja fyrir ársfund tillögu um 10% lækkun lífeyrisréttinda sjóðfélaga og lífeyrisþega.
Afkoma Sameinaða lífeyrissjóðsins á árinu 2008 markast mjög af áföllum á fjármálamörkuðum; afleiðingun af falli viðskiptabankanna og mikilli gengislækkun verðbréfa hér á landi sem erlendis.
Þrátt fyrir að markvisst hafi verið unnið að því hjá sjóðnum að draga úr vægi innlendra og erlendra hlutabréfa á árinu 2008 og auka vægi innlendra skuldabréfa og innlána rýrnaði eignasafn sjóðsins við þessar óvenjulegu aðstæður og var í árslok 90,5 milljarðar króna á móti 96,6 milljörðum króna árið áður.
Nafnávöxtun sjóðsins á árinu 2008 var neikvæð um 9,8% og raunávöxtun var neikvæð um 22,5%. Árleg meðalraunávöxtun frá stofnun sjóðsins, árið 1992, er 3,8%. Tryggingafræðileg staða sjóðsins var neikvæð um 13% í árslok 2008.
Í stærstu ávöxtunarleið sjóðsins í séreignarsparnaði var 1% nafnávöxtun á síðasta ári sem jafngildir 13,2 neikvæðri raunávöxtun, en ef horft er til síðustu 5 ára er jákvæð raunávöxtun á öllum stærstu ávöxtunarleiðum sjóðsins.