Raunhækkun eigna lífeyrissjóðanna nam 15,4% í fyrra.

 Á níunda og tíunda áratugnum jukust eignir lífeyrissjóðanna um 14% á ári að raungildi og fóru yfir 80% af landsframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands námu eignir lífeyrissjóðanna um 805 milljörðum króna um síðustu áramót og nam raunhækkun eignanna árið 2003 um 15,4%.   


Er það mikill viðsnúningur frá síðustu þremur árum þegar raunvöxtur eigna sjóðanna nam aðeins um 4% á ári að meðaltali vegna neikvæðrara ávöxtunar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Allar líkur eru á því að eignir sjóðanna nái 1000 milljörðum króna á næsta ári. Er þá svo komið að eignir lífeyrissjóðanna nema jafnháum fjárhæðum og verg landsframleiðsla.