Rangfærslur í bloggskrifum.

Bloggari fer hörðum orðum um starfsemi lífeyrissjóða og stjórnenda þeirra í skrifum á bloggsíðu sinni í dag og það ekki í fyrsta sinn. Hann má að sjálfsögðu hafa þær skoðanir á mönnum og málefnum sem hann kýs en afar æskilegt er að draga ekki ályktanir af gefnum forsendum eða hreinum staðleysum. Þessar kröfur verður ekki síst að gera í ljósi þess að sumt fjölmiðlafólk fjallar um ályktanir bloggarans eins og þar sé sjálfan sannleikann að finna. Þess vegna fáeinar ábendingar og athugasemdir.


1.     Ársreikningar lífeyrissjóða eru færðir í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins og þar er kostnaði skipt upp í „fjárfestingagjöld“ annars vegar og „rekstrarkostnað“ hins vegar. Það er útúrsnúningur að gefa  í skyn að um blekkingar sé að tefla við framsetningu ársreikninganna. Rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna er lágur í alþjóðlegum samanburði og fráleitt að vísa til rekstrartekna lífeyrissjóðanna sem villandi stærðar. Lífeyrissjóðirnir stunda til að mynda umfangsmikla innheimtu á gjöldum fyrir þau stéttarfélög sem standa að viðkomandi lífeyrissjóði. Sá hluti rekstrar lífeyrissjóðanna hefur í för með sér kostnað á móti innheimtulaunum.

2.     Röng er sú fullyrðing að lífeyrissjóðir stundi blekkingar, meðal annars með því að velja afmörkuð tímabil til upplýsinga um ávöxtun fjármuna sinna. Sjóðirnir birta einfaldlega upplýsingar um 5 og 10 ára ávöxtun og um árlega ávöxtun í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins.

3.     Fráleitt er að halda fram að lífeyrissjóðir komi ekki hreint fram og greini frá áhrifum fjármálakreppunnar á eignasöfn sín. Þvert á móti hafa lífeyrissjóðir efnt til fjölda kynningarfunda fyrir sjóðfélaga og birt upplýsingar um stöðu mála á heimasíðum sínum og í fréttabréfum. Uppgjör fyrir liðið starfsár munu birtast í marsmánuði en á vettvangi lífeyrissjóðanna er nú unnið  að tilheyrandi mati á eignum. Ársreikningarnir munu sýna og sanna að upplýsingar undanfarnar vikur og mánuði, um áhrif fjármálakreppunnar á afkomu sjóðanna, hafi á hverjum tíma sýnt eins skýra mynd af stöðunni og unnt var.

4.     Fullyrðingar um að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 40% til 50% eigna sinna ná engri átt og er þeim hér vísað á bug enn einu sinni. Viðkomandi bloggari og fleiri sama sinnis hljóta að vita betur eftir alla kynningarfundina og fréttirnar um málið.

5.     Veruleg hagræðing hefur átt sér stað í lífeyriskerfinu á liðnum árum með samruna lífeyrissjóðanna og ætla má að sú þróun haldi áfram á komandi árum.

6.     Vegið er sérstaklega að starfsheiðri framkvæmdastjóra LL í niðurlagi bloggfærslunnar þar sem vitnað er til greinar hans nýverið í Morgunblaðinu um gjaldmiðlavarnarsamninga. Nærtækast er að svara með því að benda viðkomandi og öðru áhugafólki slíkra samninga á að lesa greinina hans aftur og betur. Hana er að finna hér.