Ég fékk símtal frá ritstjóra Kastljóssins um hádegisbilið á mánudag. Erindið var að kanna hvort ég gæti mætt í Kastljósið um kvöldið og rætt um málefni lífeyrissjóðanna. Sérstaklega hefðu þeir áhuga á að ræða stærð og ítök sjóðanna á hlutabréfamarkaði. Svar mitt var já, lífeyrissjóðirnir gegna veigamiklu hlutverki íslensku hagkerfi og það er mikilvægt að á vettvangi ríkisfjölmiðilsins fari fram upplýst umræða um sjóðina og réttindi sjóðfélaga.
Mér var sagt að þáttastjórnandi myndi hringja í mig síðdegis til að ræða nánar um umræðuefnið. Það gerði hann og við áttum vinsamlegt samtal. Ég spurði hvort hann væri ekki tilbúinn að senda mér punkta í tölvupósti um það sem hann vildi ræða til þess að ég gæti undirbúið mig. Það er ekki hverjum degi sem maður fer í sjónvarpið í beina útsendingu. Ég fékk punktana og sendi honum á móti upplýsingar um lífeyrissjóðina sem hann hafði beðið mig um.
Dagurinn leið og ég var auðvitað með hugann við fyrirhugað sjónvarpsviðtal. Ég var stressaður. Ég mætti svo á tilsettum tíma og spjallaði við þáttastjórnandann um væntanlegt viðtal. Svo birtist útsendingastjórinn og sagði okkur að það væru fjórar mínútur í útsendingu og við skyldum fara inn í stúdíóið. Ég var minna stressaður en fyrr um daginn og tilbúinn að veita upplýsingar um starfsemi lífeyrissjóðanna og ræða um málefni þeim tengd.
Viðtalið hófst og tók óvænta stefnu. Í staðinn fyrir umræðuefnið hóf þáttastjórnandinn að ræða um kaup og kjör stjórnenda í ákveðnu fyrirtæki sem er reyndar í meirihlutaeigu lífeyrissjóða. Ég sagði honum að ég væri ekki kominn til að ræða um starfskjör einstakra fyrirtækja enda kem ég ekkert að slíkum samningum. Í þeim tilvikum þegar lífeyrissjóðir hafa þurft að tilnefna stjórnarmenn vegna stærðar sinnar þá velja sjóðirnir yfirleitt fólk með reynslu og faglega þekkingu. Stjórnarmennirnir skulu vera sjálfstæðir í stöfum sínum og leggja áherslu á að vinna að hagsmunum viðkomandi fyrirtækis. Það getur aldrei gengið upp að forráðamenn lífeyrissjóðanna séu með puttana í rekstri eintakra fyrirtækja hvað þá að semja um kaup og kjör stjórnenda. Þrátt fyrir þetta hélt þáttastjórnandinn áfram að spyrja og mér varð ljóst að punktarnir sem hann sendi mér voru ekki tæmandi, nú skyldi gera mig að vonda manninum fyrir að vera tilbúinn að borga forstjórum og stjórnendum ofurlaun.
Eftir þáttinn var ég hugsi. Mér fannst að þáttastjórnandinn hefði átt að koma hreint fram við mig og segja mér hvað hann ætlaði raunverulega spyrja mig um. Mér fannst líka leiðinlegt að hafa ekki fengið tækifæri til veita upplýsingar um starfsemi sjóðanna og alveg sérstaklega um réttindi sjóðfélaga sem skipta landsmenn miklu máli. Rúmlega 312 þús sjóðfélagar eiga lífeyrisréttindi í íslensku lífeyrissjóðunum. Á árinu 2012 greiddu sjóðirnir samtals 84 milljarða króna í lífeyri og á næstu árum er því spáð að lífeyrisgreiðslur aukist mikið. Það er afar mikilvægt að sjóðfélagar séu upplýstir um lífeyrisréttindin og hafði ég vonast til að fá m.a. tækifæri til að ræða það. Lífeyrissjóðirnir eru alls ekki yfir gagnrýni hafnir og við fögnum því að málefnaleg umræða fari fram um þá. Við skulum hlusta á gagnrýni og vera tilbúin að breyta ef það er til framfara og bóta.
Ég var enn að hugsa um Kastljósþáttinn á leiðinni í vinnuna morguninn eftir. Í útvarpinu var þá spilað lag sem mér fannst táknrænt og mér var hugsað til Kastljósmanna. Lagið var ,,Paint it black.“
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður stjórnar LL