Samkvæmt tekjuathugun sem Greiðslustofa lífeyrissjóða hefur framkvæmt kemur í ljós að tæplega 19% af örorkulífeyrisþegum (um 1200 manns) eru með það háar viðmiðunartekjur eftir orkutap að bætur þeirra munu að öllum líkindum falla niður hjá viðkomandi lífeyrissjóðum eftir þrjá mánuði. Þar að auki munu bætur rúmlega 17% bótaþega (um 1100 manns) verða lækkaðar. Ekki verður krafist endurgreiðslu á ofgreiddum örorkulífeyri. Hugsanlega geta viðkomandi bótaþegar átt rétt á hærri greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessara ráðstafana. Bætur rúmlega 64% örorkulífeyrisþega eða um 4100 manns munu hins vegar ekki skerðast eða falla niður.
Samkvæmt samþykktum lífeyrissjóða stofnast því aðeins réttur til örorkulífeyris að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir frá lífeyrissjóðunum vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.
Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar.
Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu almanaksárin fyrir orkutapið og skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs.
Nú liggur fyrir að heildartekjur örorkulífeyrisþega hjá lífeyrissjóðum innan Greiðslustofu lífeyrissjóða eru í all mörgum tilvikum umfram þau viðmiðunarmörk sem kveðið er á um í samþykktum og reglum lífeyrissjóðanna.
Ákveðið hefur því verið, eins og áður segir að breyta örorkulífeyri til samræmis við þá niðurstöðu frá og með 1. nóvember 2006. Greiðslur örorkulífeyris fram að þeim tíma verða hins vegar óbreyttar. Þannig gefst sjóðfélögum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og skýringum telji þeir efni standa til slíks. Starfsfólk lífeyrissjóðanna mun að sjálfsögðu gefa allar frekari upplýsingar.
Rétt er að geta þess að þessi tekjuathugun á eingöngu við neðangreinda lífeyrissjóði sem eiga aðild að Greiðslustofu lífeyrissjóða:
Gildi lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður Austurlands
Lífeyrissjóður Bolungarvíkur (nú Frjálsi lífeyrissjóðurinn)
Lífeyrissjóður bænda
Lífeyrissjóður Norðurlands
Lífeyrissjóður Rangæinga
Lífeyrissjóður Suðurlands (nú Festa lífeyrissjóður)
Lífeyrissjóður Vestfirðinga
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja
Lífeyrissjóður Vesturlands (nú Festa lífeyrissjóður)
Lífeyrissjóðurinn Lífiðn (nú Stafir lífeyrissjóður)
Sameinaði lífeyrissjóðurinn
Samvinnulífeyrissjóðurinn (nú Stafir lífeyrissjóður)
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda
Aðalbreytingin í framkvæmdinni er sú að núna er tekið mið af atvinnutekjum örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum, sem hann nýtur vegna örorkunnar, en áður var nær eingöngu litið til launatekna bótaþegans.
Á undanförnum árum og áratugum hefur hlutfall örorkubóta í greiðslum lífeyrissjóðanna farið vaxandi og er nú svo komið að örorkulífeyrir er allt upp í 44% af heildargreiðslum einstakra sjóða.
Aðalatriði málsins er þó það að samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðanna stofnast því aðeins réttur til örorkulífeyris að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Ef ekki er um tekjuskerðingu að ræða hjá bótaþeganum, er eðli málsins samkvæmt ekki greiddur örorkulífeyrir frá lífeyrissjóðunum.