Opnun séreignarsparnaðar er vel heppnuð aðgerð

Gunnar Baldvinsson skrifar ágæta grein í Morgunblaðið s.l. laugardag, þar sem hann telur m.a. að opnun séreignarsparnaðar sé vel heppnuð aðgerð, sem hafi hjálpað einstaklingum, ríki og sveitarfélögum án þess að draga úr fjölda þeirra sem spara.
Grein Gunnars er á þessa leið:
"Tímabundin opnun séreignarsparnaðar vegna greiðsluerfiðleika einstaklinga og heimila er vel heppnuð efnahagsaðgerð. Með henni hefur tekist að hjálpa mörgum einstaklingum í greiðsluerfiðleikum án þess að það hafi komið niður á fyrirkomulagi séreignarsparnaðar. Það er einnig mjög jákvætt að langflestir halda áfram að leggja fyrir til eftirlaunaáranna með þessum hætti. Einstaklingar í greiðsluerfiðleikum fengu með opnuninni aðgang að sparnaði sem annars hefði verið bundinn til 60 ára aldurs og hefur það komið sér vel fyrir marga. Hver og einn hefur val um að nýta sér þessa heimild og hafa rúmlega 50.000 manns gert það. Fjöldinn var mestur fyrst en á síðustu mánuðum hefur fækkað í hópnum. Það er afar jákvætt að flestir sem hafa nýtt sér þessa heimild hafa haldið áfram að spara.

Séreignarsjóðirnir, sem höfðu bundið eignir til langs tíma, gátu staðið undir útborgunum af því að sett var þak á úttektarfjárhæð auk þess að dreifa útborgunum yfir tíma. Opnunin hefur því ekki haft áhrif á eignasamsetningu og fjárhagslegan styrk sjóðanna.

Punkturinn yfir i-ið er að ríki og sveitarfélög hafa fengið auknar skatttekjur vegna opnunarinnar sem hefur komið sér vel á erfiðum tímum. Það hefði ekki gerst hefðum við ekki borið gæfu til að byggja upp lífeyriskerfi þar sem iðgjöld eru lögð fyrir óskattlögð og skattur greiddur af lífeyrisgreiðslum.

Þraukaðu ef þú getur

Nú hefur verið lagt til að opnunin verði framlengd, fjárhæð laus til útborgunar verði hækkuð í 5 milljónir króna og útborgunartími verði styttur í 12 mánuði. Hækkunin kemur sér eflaust vel fyrir marga en eingöngu þeir sem nauðsynlega þurfa á sparnaðinum að halda ættu að nýta sér heimildina. Þeir sem eru í verulegum fjárhagsvandræðum verða þó að gæta sín og ættu alls ekki að taka út séreignarsparnaðinn ef gjaldþroti verður ekki forðað. Séreignar­sparnað­ur er nefnilega lögvarinn en það þýðir að ekki er hægt að ganga að honum við gjald­þrot.

Þeir sem eru í vinnu og taka sparnaðinn út lenda hugsanlega í að greiða tekjuskatt í hæsta skattþrepi af útborgunum. Fæstir lífeyrisþegar greiða svo háa skatta og þeir sem eiga séreignarsparnað geta dreift útborgunum þannig að skattar verði sem lægstir. Þannig nýtist sparnaðurinn best.

Tilgangurinn með viðbótarlífeyrissparnaði er að byggja upp sjóð til að bæta við eftir­launin þegar við hættum að vinna. Það skiptir máli því flestir verða fyrir a.m.k. 40%-50% tekjulækkun þegar þeir hætta að vinna. Sá sem leggur fyrir 2% af launum í 30 ár í séreignarsparnað og fær önnur 2% í mótframlag eignast sjóð sem eykur lífeyri um sem nemur 25% af launum í 10 ár. Séreignarsparnaður er einnig varasjóður við starfsorkumissi vegna örorku eða veikinda og einnig við gjaldþrot.

Það munar um séreignarsparnaðinn eftir að vinnu lýkur. Það er staðreynd að við hættum öll að vinna fyrr eða síðar og þurfum að lifa á eftirlaunum. Ef heilsan er góð er sorglegt að geta ekki haldið óbreyttu lífsmynstri eftir að vinnu lýkur vegna lágra eftir­launa."