Opnað verður fyrir séreignarsparnað vegna greiðsluerfiðleika einstaklinga.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem kynnt var í gær, segir m.a. að sett verði lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

Þessi hugmynd, sem nú er orðin komin á verkefnaskrá nýrrar ríkistjórnar er ekki ný af nálinni og var m.a. lagafrumvarp í undirbúningi hjá fyrri ríkisstjórn í þessa veru.
Í þessu sambandi er vert að geta þess að á fundi fjármálaráðuneytisins með fulltrúum Landssamtaka lífeyrissjóða þann 16. janúar sl., gerði ráðuneytið LL grein fyrir hugmyndum um að opna fyrir útgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign. 

Fulltrúar LL töldu að varhugavert væri að rýmka reglur um útgreiðslu lífeyrissparnaðar frá því sem nú er. Slík ráðstöfun væri til þess fallin að grafa undan stoðum núverandi fyrirkomulags lífeyrismála með þeim afleiðingum að vikið yrði frá því markmiði að hver kynslóð stæði að meginstefnu til undir kostnaði vegna ellilífeyris sinnar kynslóðar. Þá gæti innlausn verulegs hlutfalls lífeyrissparnaðar á skömmum tíma orsakað verðlækkun á þeim verðbréfum sem sparnaðurinn er bundinn í. Eins var bent á að verulegur hluti lífeyrissparnaðar væri ávaxtaður í innlánum, þau myndu því lækka sem næmi innlausn sparnaðarins.


Nú er ljóst að almenn samstaða virðist vera á Alþingi að opna fyrir lífeyrissparnaðinn, a.m.k. tímabundið gagnvart fólki í brýnum fjárhagsvandræðum. 

Ljóst er að samhliða rýmkun úttektar lífeyrissparnaðar er nauðsynlegt að setja reglur sem heimila vörsluaðilum að takmarka útgreiðslur á grundvelli undirliggjandi verðbréfasafna. Einungis með því er hægt að tryggja jafnræði með þeim sem eru með sparnað sinn ávaxtaðan í verðbréfasöfnunum. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til reglna sem gilda um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.


Samkvæmt lögum er lífeyrisssparnaður í séreign ekki aðfararhæfur. Það þýðir m.a. það að jafnvel þó einstaklingur lendi í greiðsluerfiðleikum og eftir atvikum gjaldþroti þá heldur hann óskertum lífeyrissparnaði sínum. Það byggir á þeirri hugsun að hér sé um framfærslufé að ræða. Verði einstaklingum heimilað að taka lífeyrissparnað sinn út í þeim tilgangi að mæta greiðsluerfiðleikum setur það kröfuhafa í sterka stöðu. Kröfuhafi getur hæglega krafist þess að viðkomandi skuldari nýti lífeyrissparnað sinn til lækkunar skulda og til að mynda sett það sem skilyrði fyrir skuldbreytingu eða öðrum aðgerðum. Skuldari getur þá, í þeirri viðleitni sinni að bjarga sínum málum, lent í því að nýta sparnað sinn til lækkunar skulda jafnvel þó það dugi ekki til þess að forða honum frá gjaldþroti. Ef til gjaldþrots kemur yrði staða hans sú að hann væri bæði orðinn gjaldþrota með þeim afleiðingum sem það hefur almennt og búinn að tapa lífeyrissparnaði sinum. 

Landssamtök lífeyrissjóða munu óska eftir viðræðum við fjármálaráðuneytið varðandi gerð lagafrumvarps til rýmkunar á reglum um greiðslu séreignarsparnaðarins til að hægt sé að tryggja m.a. jafnræði milli vörsluaðila og þeirra einstaklinga sem eiga viðbótarlífeyrissparnað í hinum mismunandi verðbréfasöfnum.

Að lokum skal þess getið að við útborgun viðbótarlífeyssparnaðar ber viðkomandi einstaklingum að greiða tekjuskatt af fjárhæðinni.