Norski Olíusjóðurinn sætir harðri gagnrýni breskra umhverfisverndarsamtaka fyrir að stunda ólöglegt skógarhögg í Indónesíu í gegnum fyrirtæki sem sjóðurinn á að stórum hluta. Norska fjármálaráðuneytið vísar ásöknum um lögbrot á bug en telur samt ástæðu til að siðanefnd sjóðsins fjalli um málið. Umhverfissamtökin Environmental Investigation Agency í Bretlandi (AIEI komu þessu máli í hámæli og sökuðu norsk stjórnvöld um tvískinnung, sem lýsti sér annars vegar í því að Norðmenn undirrituðu sáttmála til verndar regnskógum Indónesíu en stæðu svo sjálf að ólöglegu skógarhöggi í gegnum fyrirtækið KLK, sem Olíusjóðurinn keypti í hlutabréf fyrir 40 milljónir Bandaríkjadala.
að gerði málið enn vandræðalegra en ella fyrir norsk stjórnvöld að ásakanir um meint lögbrot komu fram sama dag og Norðmennirnir undirrituðu samning um að vernda regnskóga í Indónesíu. Umrætt skógarhögg átti sér stað einmitt á sama svæði og verndunin tekur til samkvæmt samningnum.
Bresku samtökin EIA njóta stuðnings náttúruverndarsamtaka í Indónesíu og i Noregi í gagnrýni sinni og fjármálaráðuneytið í Osló varð að bregðast við, enda fylgir Olíusjóðurinn ströngum siðferðilegum reglum í fjárfestingum sínum og hefur sem slíkur áhrif á fjárfestingarstefnu annarra sjóða á alþjóðavettvangi.
Vedmund Olsen, ráðgjafi Regnskógasjóðsins norska, segir að fjármálaráðuneytið verði að skýra línur fjárfestingarstefnu Olíusjóðsins til að siðareglur sjóðsins verði meira en orðin tóm. Hann mælist til þess að siðanefnd Olíusjóðsins skilgreini þegar í stað áhættu fjárfestinga í skógariðnaði, enda sé algengt að brotið sé gegn siðfræðilegum gildum í þeim geira. Sjóðurinn verði síðan að meta hvert einstakt fyrirtæki sem fjárfestingarkost.
Umhverfissamtökin EIA segja í skýrslu um skógariðnaðinn í Indónesíu að spilling og glæpastarfsemi sé þar af slíku umfangi að í reynd sé ómöguleg að fjárfesta í fyrirtækjum í greininni án þess að blandast þar með í ólöglega starfsemi. Samtökin hafa fyrir sér nýja skýrslu skógarráðuneytis Indónesíu þar sem fram kemur að 282 af alls 325 fyrirtækjum í skógariðnaði í tilteknu héraði landsins séu grunuð um ólöglega starfsemi af einhverju tagi!
Hilde Singsaas, ráðuneytisstjóri í norska fjármálaráðuneytinu, kannast ekki við tvískinnung stjórnvalda í Noregi í þessu máli og telur ekki þörf á að breyta starfsháttum Olíusjóðsins. Hins vegar berist sjóðnum stöðugt athugasemdir og ábendingar, meðal annars frá samtökunum EIA í Bretlandi. Eðlilegt sé að siðanefnd sjóðsins fjalli um málið og hér eftir sem hingað til muni Olíusjóðurinn selja sig út úr félögum ef á daginn komi að í starfsemi þeirra sé farið á svig við gildandi starfs- og siðareglur sjóðsins.
Byggt á Aftenposten