Olíusjóðurinn í Noregi, eftirlaunasjóður norska ríkisins, hefur keypt fjórðungshlut í eignum sem fasteignafélag bresku krúnunnar, The Crown Estate, á við eina af frægustu verslunargötum veraldar, Regent Street í Lundúnum. Skrifað var undir samkomulag þar að lútandi núna um miðjan janúar.
Þetta eru fyrstu fasteignakaup Olíusjóðsins norska en hreint ekki þau síðustu því fjármálaráðuneyti Noregs hefur heimilað honum að fjárfesta í fasteignum fyrir sem svarar til allt að 5% af ráðstöfunarfé sínu. Sjóðurinn hefur hingað til haldið sig á markaði skuldabréfa og hlutabréfa en nú blasir við að hann fari líka að skyggnast um bekki í heimi fasteignaviðskipta um víða veröld til að dreifa áhættu sinni enn frekar.
Fasteignafélagið The Crown Estate hefur unnið að því að endurnýja margar og miklar eignir sínar við Regent stræti allt frá árinu 2002 og hefur ekki látið staðar numið í þeim efnum. Félagið skortir á hinn bóginn fjármuni til að halda verkefni gangandi áfram og hefur ekki leyfi til að slá lán og safna skuldum af slíku tilefni.
Fjármunir sem Olíusjóðurinn reiðir fram er því nákvæmlega það sem þetta virta félag bresku krónunnar þarf á að halda nú um stundir.
The Crown Estate er stórt og mikið fyrirtæki með ríkar hefðir og er í hópi umsvifamestu fasteignafélaga Bretlands. Samningur þess við norska Olíusjóðinn tekur til alls 113 bygginga við Regent stræti og sjóðurinn hefur tekjur af leigu þeirra fyrir verslun, viðskipti og þjónustu af öllu tagi.
Margt þekktra fyrirtækja er við Regent stræti, eins og nærri má geta, til dæmis Apple, Burberry, Banana Republic og Hamleys. Þá má nefna að sjálft breska ríkisútvarpið, BBC, er til húsa á þessum slóðum.
Byggt á dn.no og Daily Telegraph