Ógreidd iðgjöld sjálfstæðra atvinnurekenda skapa ekki rétt.

Niðurstaða úrskurðar og og umsagnarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða er sú að lífeyrissjóði beri ekki að reikna með ógreidd iðgjöld sjálfstæðs atvinnurekanda við útreikning örorku- eða makalífeyris og að lífeyrissjóðnum sé ekki skylt að taka við slíkum ógreiddum iðgjöldum eftir að tryggingaatburður hefur átt sér stað til þess að viðkomandi tryggi sér þannig framreikningsrétt.  Eftirlit ríkisskattstjóra með iðgjaldagreiðslum breytir ekki þeirri niðurstöðu.

Álitaefnið

Álitaefnið var hvort lífeyrissjóði beri að taka tillit til vangreiddra iðgjalda við útreikning örorku- og makalífeyris, þegar í hlut á sjóðfélagi sem greitt hefur til sjóðsins sem sjálfstæður atvinnurekandi.  Ber lífeyrissjóðnum að taka við iðgjöldum sjálfstæðs atvinnurekanda vegna liðins tímabils eftir að atburður hefur orðið sem leiðir til lífeyrisréttar, þ.e. örorkulífeyris vegna varanlegrar örorku sjóðfélagans eða makalífeyris vegna andláts hans?

 

 

Lögin - lagarök

Með lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda var sjálfstæðum atvinnurekendum gert skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfshóps eða starfsstéttar, sbr. 2. gr. laganna.  Ekki var í þessum lögum beint lagaákvæði sem tók til þess álitefnis sem hér er til skoðunar.  Hafa því meginreglur íslenks réttar, einkum vátryggingaréttar, gilt um álitaefnið.

 

Með lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem gildi tóku 1. júlí 1998, voru felld úr gildi ákvæði laga nr. 55/1980 er lutu að skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Í 4. mgr. 1. gr. nýju laganna kemur fram að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.

 

Í 13. gr. laga nr. 129/1997 er ákvæði sem kveður á um frá hvaða tíma réttur til lífeyris samkvæmt lögunum skuli reiknast.  Þar segir í 2. mgr. 13. gr.:

 

“Réttur til lífeyris samkvæmt lögum þessum reiknast frá þeim tíma sem iðgjald berst lífeyrissjóði.  Iðgjöld launþega, sem launagreiðandi hefur sannanlega innheimt en ekki staðið lífeyrissjóði skil á, svo og iðgjaldshluta hans, skal þó meta að fullu til réttinda frá eindaga iðgjaldagreiðslu, enda hafi sjóðnum borist vitneskja um iðgjaldsgreiðsluskyldu innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits skv. 18. gr.  Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.”

 

Samkvæmt þessu ákvæði er ljóst að það er meginregla íslensks réttar að réttur sjóðfélaga í lífeyrissjóði til lífeyris er bundinn þeim iðgjaldagreiðslum, sem lífeyrissjóðurinn hefur tekið við hans vegna.  Það er samkvæmt þessu meginregla að ógreidd iðgjöld veita ekki rétt til lífeyris og eru slík iðgjöld þá ekki reiknuð með við mat á rétti sjóðfélaga til framreiknings.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði gildir sérstök undantekningarregla um launþega, þegar sérstaklega stendur á eins og í ákvæðinu greinir.  Í þeim tilvikum getur sjóðfélagi, sem er launþegi, öðlast réttindi út á iðgjöld, sem lífeyrissjóðurinn hefur ekki fengið greidd.  Er það háð því að lífeyrissjóðurinn fái iðgjöldin greidd frá Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota, sbr. nú lög nr. 88/2003, en Ábyrgðasjóður launa tryggir ekki iðgjöld vegna sjálfstæðra atvinnurekenda.  Samkvæmt því gildir undantekningarreglan ekki um iðgjöld sjóðfélaga sem er sjálfstæður atvinnurekandi.

 

Í þessu sambandi er rétt að vísa til greinargerðar, er fylgdi frumvarpi til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er varð að lögum nr. 129/1997.  Í umfjöllun um 13. gr. lagafrumvarpsins segir:

 

“Í 2. mgr. er leitast við að skilgreina hvenær lífeyrisréttur stofnast.  Lagt er til að megin reglan verði sú að réttur til lífeyris reiknist frá þeim tíma sem iðgjald er greitt til lífeyrissjóðs.  Í flestum tilvikum eru iðgjöld greidd til lífeyrissjóða reglulega og engin vandkvæði fyrir hendi að þessu leyti.  Hins vegar er nauðsynlegt að tekin séu af tvímæli um þetta þegar um vangoldin iðgjöld er að ræða.  Hér er lagt til að gagnvart þeim sem bera sjálfir ábyrgð á greiðslum eigin iðgjalda gildi meginreglan um reikning réttinda frá þeim tíma er greiðslan fer fram. (Leturbr. úrskn.) Með hliðsjón af samningsákvæðum, svo og tillögu þessa frumvarps um skyldu launagreiðanda til að halda eftir iðgjaldshluta launþega og að standa lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum, þykir eðlilegt að rýmri regla gildi um það frá hvaða tíma lífeyrisréttur launþega stofnast.”

 

Samkvæmt þessu er ljóst að meginreglan um að ógreidd lífeyrissjóðsiðgjöld veiti ekki rétt til lífeyris gildir um sjálfstæða atvinnurekendur og hafði löggjafinn þá sérstaklega í huga við setningu laganna, sbr. tilvitnaðar athugasemdir í greinargerð með frumvarpinu að lögunum.

 

Þessi meginregla styðst einnig við þá meginreglu tryggingaréttar almennt að ekki sé unnt að tryggja sig eftir á – að ekki sé unnt að kaupa sér tryggingarréttindi eftir að sá atburður hefur orðið, sem tryggingarréttindin grundvallast á.  Fyrir þeirri reglu eru augljós lagarök. 

 

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1997 þá skal ríkisskattstjóri hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til, sbr. einnig V. kafla reglugerðar nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Tilgangur þessa eftirlits er einungis sá að reyna að tryggja sem kostur er að allir, sem aðildarskyldan tekur til, greiði til lífeyrissjóðs.  Ákvæðinu er ekki ætlað að leysa lífeyrissjóði undan þeirri skyldu að innheima iðgjöld í vanskilum vegna sjóðfélaga sinna, né heldur að leysa sjóðfélaga sem er í sjálfstæðum atvinnurekstri undan þeirri skyldu að greiða iðgjaldið á réttum tíma í samræmi við þær reglur, sem um iðgjaldaskil gilda.  Lagaákvæðin um eftirlitsskyldu ríkisskattstjóra voru lögtekin um leið og framangreint ákvæði 13. gr. laganna um frá hvaða tíma réttur til lífeyris stofnast, enda þótt framkvæmd eftirlitsins hafi ekki byrjað fyrr en einhverju seinna.  Ákvæði 6. gr. breytir því engu um meginregluna sem fram kemur í 2. mgr. 13. gr. laganna. 

 

Niðurstaða

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðar og og umsagnarnefndar LL að lífeyrissjóði beri ekki að reikna með ógreidd iðgjöld sjálfstæðs atvinnurekanda við útreikning örorku- eða makalífeyris og að lífeyrissjóðnum sé ekki skylt að taka við slíkum ógreiddum iðgjöldum eftir að tryggingaatburður hefur átt sér stað til þess að viðkomandi tryggi sér þannig framreikningsrétt.  Eftirlit ríkisskattstjóra með iðgjaldagreiðslum breytir ekki þeirri niðurstöðu.