Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagður er til 10,5% fjársýsluskattur á banka, lífeyrissjóði og vátryggingafélög. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að skatturinn verði innheimtur í staðgreiðslu um hver mánaðamót og eigi að skila um 4,7–5,1 milljarði kr. á ári. Hugmyndir um þessa skattlagningu komu fyrst fyrir sjónir almennings þegar fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Landssamtök lífeyrissjóða lýsa andstöðu sinni við þessari skattlagningu enda liggur ljóst fyrir að hún mun rýra réttindi lífeyrisþega.
Þau rök sem tilgreind eru fyrir skattlagningunni eiga síst við um lífeyrisþega sem hafa þurft að taka á sig skerðingar í kjölfar bankahruns og þóttu þeir þó ekki ríða feitum hesti fyrir. Verði frumvarpið að lögum eru sjóðfélagar að taka á sig enn frekari skerðingu með skattlagningu frá ríkinu.
Landssamtök lífeyrissjóða lýsa harðri andstöðu við auknum skattaálögum enda telja sjóðfélagar sig þegar hafa orðið fyrir miklum skelli í kjölfar bankahruns og þola illa auknar byrðar í formi skattlagningar umfram aðra þegna þjóðfélagsins.