Ólafur Páll Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins. Hann tekur við starfinu af Halldóri Kristinssyni, en Halldór mun sinna fjárfestingum sjóðsins sem deildarstjóri yfir sjóðstjórum í Eignastýringu Landsbankans.
Ólafur Páll er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með LLM gráðu í banka- og fjármálarétti frá University of London. Hann starfaði í fjármálaráðuneytinu frá árinu 2000 til 2006, hjá Samtökum fjármálafyrirtækja á árinu 2007 og í lögfræðiráðgjöf Landsbankans frá árinu 2008.
Íslenski lífeyrissjóðurinn, sem var stofnaður árið 1990, er sjálfstæður lífeyrissjóður sem rekinn er af Landsbankanum á grundvelli rekstrarsamnings. Sjóðurinn býður upp á lífeyrissparnað í sameign og séreign. Eignir sjóðsins nema tæpum 39 milljörðum og sjóðfélagar eru rúmlega 27.000.