Gunnar Baldvinsson er nýkjörinn formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða en hann hefur átt sæti í stjórn samtakanna frá árinu 2005. Hann tók við af Arnari Sigurmundssyni sem gegnt hefur formennsku samtakanna af mikilli röggsemi undanfarin sex ár. Gunnar Baldvinsson er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins en því starfi hefur hann gegnt allt frá árinu 1990. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ árið 1985 og MBA frá University of Rochester árið 1988. Gunnar tók próf í verðbréfaviðskiptum árið 1994. Hann hefur skrifað fjölda greina um lífeyrismál og eftirlaunasparnað og má þar nefna að hann er höfundur bókarinnar „Verðmætasta eignin“ sem kom út árið 2004 og fjallar ýtarlega um ýmsa þætti í uppbyggingu lífeyrissjóða.