Nýjar reglur um upplýsingaskyldu um launakjör stjórnenda hlutafélaga

Kauphöll Íslands hf. hefur samþykkt reglur um upplýsingaskyldu útgefenda hlutabréfa um starfskjör og hlutabréfaeign stjórnenda sem munu taka gildi 1. júlí 2003. Í október 2002 skipaði stjórn Kauphallarinnar starfshóp til að gera tillögur að reglunum. Formaður hópsins var Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna en að auki skipuðu hópinn Árni Tómasson, bankastjóri Búnaðarbanka Íslands hf., Viðar Már Matthíasson, prófessor í lagadeild Háskóla Íslands og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands.

Hópurinn fór yfir kröfur um upplýsingagjöf í skráningarlýsingum og viðvarandi upplýsingaskyldu í helstu kauphöllum á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum og Bretlandi. Við smíði reglnanna voru lagðar til grundvallar núgildandi lágmarkskröfur um upplýsingagjöf í skráningarlýsingum en gerðar auknar kröfur um upplýsingaskyldu í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í viðmiðunarlöndum á síðustu árum. Jafnframt var tekið tillit til krafna markaðarins.

Stærstu breytingarnar með setningu reglnanna eru þær að birta ber ítarlegar upplýsingar um launakjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda sérgreint í skráningarlýsingum og í ársreikningum. Áður hafði ekki verið gerð krafa um sérgreiningu upplýsinga og ósamræmi var í þeim kröfum sem gerðar voru til upplýsingagjafar í skráningarlýsingum og ársreikningum. Þess ber að geta að það markar tímamót að Kauphöllin geri sérstakar kröfur um efnisinnihald ársreikninga.

Þá eru nýmæli að birta ber ítarlegar upplýsingar um kaupréttarsamninga og sambærilega samninga æðstu stjórnenda. Ákvæði um óvenjuleg viðskipti er að finna í núgildandi reglum um skráningarlýsingar en ákvæði um óvenjulega samninga er að finna í lögum um ársreikninga. Það sama á við um upplýsingagjöf um hlutafjáreign stjórnenda. Nýmæli með reglum Kauphallarinnar felast í að upplýsingagjöfin nær til einstaklinga en ekki hóps. Einnig er ítarlegri upplýsinga krafist, sbr. t.d. upplýsinga um óvenjulega ráðningar- eða starfslokasamninga æðstu stjórnenda og samninga um lífeyrisréttindi umfram það sem venjulegt er. Þá eru ítarlegar skýringar við ákvæði reglnanna en jafnframt tekið fram að útgefendum beri að virða þau grundvallarsjónarmið sem búa að baki reglunum búa en ekki leita leiða til að komast hjá því að birta upplýsingar.

Að öðru leyti má nefna að birta ber upplýsingar um hóp annarra stjórnenda en falla undir æðstu stjórnendur sem og þóknun endurskoðenda annars vegar fyrir endurskoðunarþjónustu og hins vegar fyrir önnur störf í þágu útgefenda.

Reglurnar gilda bæði fyrir kauphallarskráð félög, þ.e. útgefendur á Aðal- og Vaxtarlista, sem g Tilboðsmarkað Kauphallarinnar. Eins og áður segir munu þær taka gildi 1. júlí n.k.