Noregur: Áhrif loftslagsbreytinga á fjármálamarkaði og fjárfestingar

Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, hefur ákveðið að lífeyrissjóður norska ríkisins, „olíusjóðurinn“, taki þátt í umfangsmikilli rannsókn sem ætlað er að meta möguleg áhrif loftlagsbreytinga á fjármálamarkaði og á fjárfestingar. Ráðherrann segir mikilvægt að fjárfestar tileinki sér gagnrýna hugsun gagnvart loftlagsbreytingum og skapi verklagsreglur til að bregðast við áhrifum þeirra á fjármál og fjárfestingar. Norska fjármálaráðuneytið fól ráðgjafarfyrirtækinu Mercer að annast verkefnið og gerir ráð fyrir að því ljúki snemma árs 2010.

Markmiðið er að skrásetja bæði áhættu og tækifæri eftir svæðum og eignaflokkum og greina svo með eigindlegum hætti hversu viðkvæm þau svæði og eignaflokkar eru gagnvart mismunandi aðstæðum. Þessar upplýsingar skapa síðan grundvöll fyrir skipulega eignadreifingu.

 

Danyelle Guyatt, forystumaður rannsóknateymis Mercer, segir að með þessu móti verði hægt að skapa umhverfi sem breytist mismikið eftir aðstæðum sem og að greina hversu vel eða illa stefna stjórnvalda fylgir breyttum aðstæðum.

 

Kristin Halvorsen fjármálaráðherra segir hefðbundnar aðferðir við skipulega áhættudreifingu ekki taka tillit til loftlagsbreytinga:

 

„Verkefninu er ætlað að meta áhrif loftslagsbreytinga á fjármálamarkaði jafnhliða því að kanna áhrif þeirra á áhættudreifingu. Nánar til tekið er verkefninu ætlað að þróa aðferðafræði til að greina aðstæður og til að bera kennsl á hættur sem steðja að langtímafjárfestingum þvert á eignaflokka og staðsetningu. Verkefnið er bæði metnaðarfullt og flókið en mun ganga betur fyrir sig ef það er unnið í samstarfi við aðra. Ég hvet því stóra stofnanafjárfesta og iðnfyrirtæki um allan heim til að sameinast um það,“ segir Halvorsen og bætir við að með samvinnu sé hægt að þróa þau tæki og tól sem nauðsynleg eru til að skilja fjárhagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga.