Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 sem nú fer fram í Glasgow var tilkynnt um markmið íslenskra lífeyrissjóða um stórauknar grænar fjárfestingar. Alls hafa 13 íslenskir lífeyrissjóðir sett sér markmið um 4,5 milljarða Bandaríkjadala fjárfestingu (um 580 milljarðar króna) í verkefnum sem tengjast hreinni orku og umhverfisvænum lausnum fram til 2030.
Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis í samstarfi við alþjóðlegu samtökin Climate Investment Coalition en auk íslensku sjóðanna hafa fjölmargir aðrir norrænir sjóðir gefið út svipaðar yfirlýsingar síðastliðin tvö ár. Með undirritun viljayfirlýsingar staðfesta íslensku lífeyrissjóðirnir vilja sinn til að vera virkir þátttakendur í að auka hlut grænna fjárfestinga og að vinna að því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til samræmis við ákvæði Parísarsáttmálans.
Fréttatilkynning sem sjóðirnir sendu frá sér.
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, ávarpaði COP26 ráðstefnuna í Glasgow og sagði af því tilefni:
"Íslenskir lífeyrissjóðir hafa í samstarfi við Climate Investment Coaltion sett sér markmið um 4,5 milljarða Bandaríkjadala fjárfestingu í grænum orkulausnum. Það er hrein viðbót við núverandi fjárfestingar lífeyrissjóða í umhverfisvænum verkefnum sem nema 1,4 milljörðum Bandaríkjadala. Lífeyrissjóðirnir hafa fullan hug á að halda áfram fjárfestingum í nýtingu jarðvarma og öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum af ýmsu tagi, dreifingu orkunnar og nýtingar hennar, ekki síst í þágu markmiða um orkuskipti í atvinnurekstri og samgöngum á Íslandi."