Nauðsynlegt að sjávarútvegs- og orkufyrirtæki verði áberandi á hlutabréfamarkaði

Sú var tíð árið 2002 að nítján félög í sjávarútvegi og fiskeldi voru skráð í Kauphöll Íslands en nú er aðeins eitt eftir og það er meira að segja ekki á aðalmarkaði heldur á svokölluðum First North-markaði, sem er til hliðar við aðalmarkaðinn. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur forsendu vera til að gera Kauphöll Íslands að nýju að stærstu sjávarútvegskauphöll veraldar. Fjármálamarkaðurinn er enn í sárum eftir hrun, sem sést best á því hve hlutabréfamarkaðurinn er afskaplega rýr í samanburði við skuldabréfamarkaðinn. Páll Harðarson sagði á ársfundi Landsstaka lífeyrissjóða að hlutabréfamarkaðurinn þyrfti að verða fjórfalt eða fimmfalt stærri og viðskipti helst að tífaldast til að ástandið teldist viðunandi. Markmiðið væri samt ekki að hafa hlutabréfamarkaðinn sem stærstan heldur að gera hann virkan þannig að hann þjónaði vexti efnahagslífsins.

Forstjórinn sagði greinilegt að áhugi væri að aukast fyrir því að skrá fyrirtæki í Kauphöll Íslands. Mikið væri í gangi á bak við tjöldin og sér kæmi raunar á óvart ef skráð félög yrði ekki orðin tvöfalt fleiri en nú einhvern tíma á árinu 2012. Og þegar horft er ögn lengra inn í framtíðina sér hann fyrir sér að

  • árið 2015 verði um 50 félög skráð í Kauphöll Íslands.
  • dagleg velta í hlutabréfum verði tveir til þrír milljarðar króna.
  • hlutdeild erlendra fjárfesta í viðskiptum verði 25-35%.
  • almenningur verði aðaleigandi sjávarútvegsfyrirtækja.
  • Landsvirkjun, HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur verði komin á markað.
  • stærstu smásölu- og olíufyrirtækin verði sömuleiðis skráð.
  • ný þekkingarfyrirtæki í vexti verði áberandi.

 Þannig endurspegli fyrirtækin í Kauphöllinni hagkerfið.

 Alls voru 75 fyrirtæki skráð í Kauphöll Íslands þegar flest var á árunum 1999 og 2000 en fjöldinn fór alveg niður í 11 árið 2010 en útlit er nú fyrir að skráð fyrirtæki verði orðin 17 talsins áður en árið 2011 rennur skeið sitt á enda.  Þá er ekki síst vísað til þess að sex fyrirtæki hafa lýst opinlega yfir að þau stefni að skráningu: Hagar, Fasteignafélag Íslands (dótturfélag Regins ehf.), TM, SKÝRR, Reitir og Horn. 

Miðstýring ógnar kröftugum hagvexti 

Páll Harðarson sagði að ekkert í ytri aðstæðum ætti að koma í veg fyrir kröftugan hagvöxt á Íslandi á næstu árum og benti í því sambandi á sterka samkeppnisstöðu, þokkaleg kjör sem útflutningsgreinar byggju við á erlendum mörkuðum, lága raunvexti og betri nettóskuldastöðu þjóðarbúsins en flestir hefðu þorað að vona fljótlega eftir hrun. Hann bætti síðan við:

 „Stærsti áhættuþátturinn er við sjálf og sérstaklega stefna stjórnvalda á næstu árum. Greinileg merki eru um stefnu til aukinnar miðstýringar, sem er stærsta ógnunin við kröftugan hagvöxt en ekki ytri aðstæður.“ Páll var þarna greinilega að vísa til frumvarpa um breytingar í sjávarútvegi. Síðar í erindi sínu vék hann beint að því máli og sagði að núna virtist eiga að „draga verulega úr hagkvæmni sjávarútvegsins“ og að óþarft væri að „hugsa allt í gegnum skattlagningu“ þegar rætt væri um að færa arð úr sjávarútveginum til þjóðarinnar. Slíkt mætti gera á margan annan hátt, til dæmis með því að stuðla að almenningseign sjávarútvegsfyrirtækja; skrá félögin á markað á verði sem nokkuð fyrirsjáanlegt væri að myndi hækka, búa þeim gott rekstrarumhverfi og láta þau skila þannig töluverðum arði til eigenda sinna, almennings.

 Fyrirtæki skortir áhuga og aðhald fjárfesta

 Forstjóri Kauphallarinnar hvatti lífeyrissjóði til þess að vera virkir á markaðinum og aðhaldssamir gagnvart fyrirtækjum sem fjárfest er í .

 „Það er leikur ekki nokkur vafi á að slæmir stjórnarhættir í fyrirtækjum áttu ríkan þátt í áfallinu sem á okkur dundi,“ sagði Páll og  rifjaði upp að Kauphöllin, Samtak atvinnulífsins og Viðskiptaráð hefðu kynnt leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrst árið 2004 en undirtektir verið afar dræmar.

 „Nú er annað andrúmsloft en þá og menn sýna góðum stjórnarháttum meiri huga en áður. Ef hluthafar sýna slíkum málum ekki mikinn áhuga verður árangur á endanum takmarkaður og lítið gerist. Við hjá Kauphöllinni verðum vör við að hluthafar láta sig hvorki stjórnarhætti né hegðun fyrirtækja almennt miklu skipta. Ef fyrirtæki erlendis fá opinbera áminningu frá fjármálaeftirliti eða kauphöll, að ég ekki nú tali um févíti, snarminnkar trú markaðarins á slíkum fyrirtækjum og fjárfestar hugsa sig tvisvar um. Hér á landi gilda allt önnur lögmál. Kauphöllinn getur jafnvel úthlutað áminningum eins og sælgæti án þess að menn láti sig það nokkru varða og hluthafar bara alls ekki! Þarna held ég að lífeyrissjóðir hafi alveg sérstakt hlutverk. Fjárfestar verða að sýna að það skipti máli hvernig fyrirtæki haga sér. Annars gerist ekki neitt, sama hvaða reglur, lög eða viðurlög gilda.“

 Virk skortsala af hinu góða

Páll Harðarson kallaði eftir „almennilegri lagaumgjörð um skortsölu“ og sagði að til þess þyrfti að koma á sæmilega virkum verðbréfalánamarkaði. Hann tók svo til orða að vart mætti nefna hugtakið skortsölu svo stjórnmálamenn heyrðu, enda væri skortsala í huga þeirra huga „samnefnari fyrir allt slæmt“! Páll kvað það hins vegar álit sitt að virkur skortsölumarkaður á árunum fyrir hrun „hefði mögulega getað komið í veg fyrir stærsta slysið“, þ.e. þegar verð á hlutabréfum hækkaði upp úr öllu valdi og langt umfram það sem rekstarforsendur viðkomandi fyrirtækja gáfu tilefni til. Aðhald með virkri skortsölu hefði mögulega getað hægt á þessu, heft vöxtinn og skapað heilbrigðara umhverfi en raun varð á.

Páll lýsti því jafnframt yfir að hann myndi leggja formlega til að Kauphöllin, lífeyrissjóðir og fleiri tækju það sem sérstakt samstarfsverkefni á næstu mánuðum að koma á fót lánamarkaði með verðbréf og mynda þannig grunn að virkri skortsölu.