Moody´s telur áríðandi að breyta norska lífeyriskerfinu.

Lánshæfisfyrirtækið Moody´s segir í árlegri skýrslu sinni um Noreg að áríðandi sé að umbætur eigi sér stað á norska lífeyriskerfinu vegna sívaxandi öldrunarbyrði  sem setji mikla pressu á fjármál hins opinbera og geti takmarkað efnahagslegan vöxt. 

“Slíkar endurbætur verða enn  nauðsynlegri þegar tekjur af olíu og gasi fara að minnka í tímans rás”, segir fyrirtækið í umræddri skýrslu.

 

Fyrirhugaðar breytingar á eftirlauna- og skattamálum í Noregi mun hjálpa við að viðhalda samkeppnishæfi í hagkerfinu og verða til góðs fyrir þjóðina þegar litið er til lengri tíma.  Moody´s segir ennfremur að lánshæfismat Noregs sem er Aaa endurspegli sérlega góða efnahagslega stöðu þjóðarbúsins. Sú ákvörðun stjórnvalda að tekjur af olíu- og gasframleiðslunni renni í sérstakan Olíusjóð sem fjárfesti erlendis væri dæmi um ábyrga stefnumörkun.

 

Fram kom í skýrslu Alþjóðagjaldfeyrissjóðsins í síðasta mánuði að eignir Olíusjóðsins, sem nema 803 milljörðum norska króna, muni ekki duga til að standa undir framtíðarlífeyrisgreiðslum í norska eftirlaunakerfinu.

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að Noregur standi betur að vígi en aðrar þjóðir með sérstakan Olíusjóð, sem hafi það hlutverk að standa undir framtíðarlífeyrisgreiðslum þjóðarinnar og sé þannig formlega tengdur eftirlaunakerfi landsins.   

 

 


Investment & Pensions Europe