Mjög góð ávöxtun hjá sjóðum Framsýnar á árinu 2003.

Síðastliðið ár var eitt það besta í sögu Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Ávöxtun samtryggingarsjóðs var 17,0% sem svarar til 13,9% raunávöxtunar. Í árslok 2003 var hrein eign til greiðslu lífeyris kr. 63.479 milljónir sem er hækkun um 18,9% frá fyrra ári. Tryggingafræðileg úttekt sýnir að eignir umfram heildar skuldbindingar eru 1,5%, þrátt fyrir mikla niðursveiflu þrjú ár þar á undan.

Góð ávöxtun sjóðsins skýrist fyrst og fremst af hækkun á gengi hlutabréfa. Ávöxtun innlendra hlutabréfa sjóðsins var 43,85% og gengi erlendra hlutabréfa sjóðsins hækkuðu um 18,74% í íslenskum krónum, þrátt fyrir að Bandaríkadalurinn hafi veikst um 12,4% gagnvart íslensku krónunni. Sjóðurinn greip til varnaraðgerða vegna gengislækkunar Bandaríkadals sem skiluðu um 713 milljónum króna.

 Virkum sjóðfélögum fjölgaði um 1,9% á árinu og voru þeir 17.031 í árslok. Séreignarsjóðir Séreignarsjóður Framsýnar stækkaði verulega á árinu. Heildarávöxtun séreignarsjóðanna var 24,14% sem jafngildir 20,85% raunávöxtun. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 644 milljónir í árslok og óx um 378 milljónir á árinu, eða um 141,6%.

 Rétthafar séreignardeildarinnar voru í árslok 26.303 og fjölgaði þeim um 58% á árinu. Skýringin á betri afkomu séreignarsjóðanna umfram samtryggingarsjóðinn felst í uppgjörsaðferð á skuldabréfasafni sjóðanna. 

 Samtryggingarsjóðurinn greiddi kr. 2.082 milljónir í lífeyri á árinu 2003 en það er 6,7% hækkun milli ára. Alls fengu 9.282 sjóðfélagar greiðslur á árinu, eða 3,3% fleiri en árið á undan. Alls fengu 891 sjóðfélagi greidda fleiri en eina tegund lífeyris. Lífeyrisgreiðslurnar skiptust sem hér segir:

  • Ellilífeyrir 6.164 sjóðfélagar fjölgun um 2,7%
  • Örorkulífeyrir 2.286 sjóðfélagar fjölgun um 9,9%
  • Makalífeyrir 1.088 einstaklingar fækkun um 2,3%
  • Barnalífeyrir 635 einstaklingar fjölgun um 6,9%

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Framsýnar.