Lífeyrissjóður sjómanna hefur gengið frá milliuppgjöri fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2003. Raunávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna á ársgrundvelli var 10,3% fyrstu sex mánuði ársins. Er það mikill viðsnúningur frá fyrra ári, en raunávöxtun sjóðsins árið 2002 var 0,6%. Fjármagnstekjur fyrstu sex mánuði ársins námu rúmum 3 milljörðum króna en voru 493 milljónir á sama tíma í fyrra.
Þessa góðu afkomu má einkum rekja til góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum sjóðsins auk viðsnúnings á erlendum verðbréfamörkuðum. Einnig var ávöxtun innlendra skuldabréfa góð á tímabilinu. Almennt hafa skilyrði á verðbréfamörkuðum verið afar góð á árinu.
Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 50,4 milljörðum króna og hefur hækkað um 3,3 milljarða frá ársbyrjun. 70% af eignum sjóðsins er í innlendum skuldabréfum, 15% í innlendum hlutabréfum og 15% í erlendum verðbréfum. Það sem einkennt hefur ávöxtun sjóðsins undanfarin ár eru meiri sveiflur en áður hafa sést. Eignir sjóðsins eru háðari markaðsverði en áður og taka meira mið af markaðsaðstæðum.