Metávöxtun lífeyrissjóðanna í fyrra - 13,2% raunávöxtun.

Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna nam árinu 2005  13,2 %, sem er besta meðalávöxtun sjóðanna, síðan mælingar hófust. Raunávöxtunin var 10,4% árið 2004, 11,3 árið 2003, -3,0 árið 2002 og -1,9 árið 2001. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ára var 6% og meðaltal sl. 10 ára var 6,4%. Þess má geta að Landssamtök lífeyrissjóða spáðu í maí s.l. að raunávöxtun sjóðanna yrði um 13,5% í fyrra, og er sú spá LL býsna nærri upplýsingum FME.

Fjármálaeftirlitið hefur nú sett á heimasíðu sína, www.fme.is, skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2005. Í skýrslunni, sem tekin er saman af Fjármálaeftirlitinu, er að finna ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2005 ásamt upplýsingum unnum úr öðrum fyrirliggjandi gögnum hjá Fjármálaeftirlitinu. Sjá hér skýrslu FME.

 Í árslok 2005 voru starfandi lífeyrissjóðir alls 46 en í árslok 2004 voru 48 lífeyrissjóðir starfandi. Af framangreindum 46 lífeyrissjóðum taka 10 þeirra ekki lengur við iðgjöldum og eru því fullstarfandi sjóðir 36. Af 46 lífeyrissjóðum telst 31 vera lífeyrissjóður án ábyrgðar annarra en 12 lífeyrissjóðir teljast vera með fullri ábyrgð annarra. Í 3 tilvikum er mismunur á ábyrgð milli deilda sjóðsins.

Fjöldi virkra sjóðfélaga í samtryggingardeildum var 181.393 og 59.277 í séreignadeildum. Fjöldi lífeyrisþega í samtryggingardeildum var 65.501 og 1.564 í séreignadeildum.

Helstu niðurstöðutölur skýrslunnar eru þær að hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2005 nam 1.219,5 ma.kr. samanborið við 986,6 ma.kr. í árslok 2004. Aukningin er 23,6% sem samsvarar 18,7% raun­aukningu miðað við vísitölu neysluverðs. Ráðstöfunarfé samkvæmt sjóðstreymi á árinu 2005 nam samtals 486,8 ma.kr. samanborið við 455,1 ma.kr. árið á undan. Iðgjöld milli ára hækkuðu úr 72,4 ma.kr. á árinu 2004 í 87 ma.kr. á árinu 2005. Gjaldfærður lífeyrir var 34,9 ma.kr. 2005 en var 31,2 ma.kr. árið 2004.