Metár í erlendum verðbréfakaupum í fyrra.

Innlendir aðilar keypu erlend verðbréf fyrir 123,5 milljarða króna í fyrra, en árið 2004 námu þessi kaup 75,8 milljörðum króna. Í desember námu erlend verðbréfakaup 18,4 milljörðum nettó samanborið við 10,5 milljarða í sama mánuði árið 2004. Kaupin í desember eru þau næst mestu frá því að byrjað var að safna upplýsingum en þau náðu í hámarki í október 2005.

Þetta kemur fram í gögnum sem Seðlabankinn hefur birt.

Lífeyrissjóðirnir eru sem fyrr stærstu fjárfestarnir hérlendis í erlendum verðbréfum en eign þeirra í erlendum verðbréfum hafði vaxið um 68 milljarða króna miðað við lok nóvember og í rúm 24% af eignasafni þeirra.

Hafa sjóðirnir nýtt hátt gengi krónunnar til kaupa á erlendum verðbréfum. Þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi árið 2005 sett aukin kraft í erlendu verðbréfakaupin og keypt að hámarki fyrir um 68 ma.kr. frá ársbyrjun 2005 fram til loka nóvember þá skýrir það ekki nema að hluta til erlend verðbréfakaup að fjárhæð 123,5 ma.kr. árið 2005. Einnig vegur útrás íslenskra fyrirtækja nokkuð þungt í tölum fyrir árið 2005, sem lýsir sér best í auknum kaupum á erlendum hlutabréfum í stað hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða líkt og áður hefur verið raunin.

Sjá hér yfirlit yfir erlend verðbréfakaup 2005.