Meirihluti andvígur skuldaniðurfellingu ef það þýðir skertan lífeyri

Um 43% Íslendingar eru andvígir almennri skuldaniðurfellingu, en þriðjungur er hins vegar fylgjandi því að lífeyrissjóðir taki þátt í niðurfellingu húsnæðisskulda þó það leiði til þess að lífeyrisgreiðslur kunni að skerðast. Þá ályktun má að minnsta kosti draga af niðurstöðum viðhorfskönnunar um lífeyrismál á vegum Miðlunar ehf.  
Þetta var netkönnun sem framkvæmd var 20. október til 16. nóvember 2010. Upphaflegt úrtak  var valið af handahófi úr þjóðskrá, fólk á aldrinum 18-75 ára, alls 1.600 manns. Þar af svöruðu 863 eða 54%.

Ein spurninganna sem lögð var fyrir viðmælendur hljóðaði svo:
  • Hversu fylgjandi eða andvígur ert þú því að lífeyrissjóðir taki þátt í skuldaniðurfellingu húsnæðislána, þó það þýði að lífeyrisgreiðslur myndu mögulega skerðast?
Niðurstaðan var sem hér segir:
Mjög fylgjandi              5,6%
Frekar fylgjandi          23,6%
Tekur ekki afstöðu     28%
Frekar andvígur          25,1%
Mjög andvígur            17,8%

 

Þegar niðurstöður eru dregnar saman eru með öðrum orðum 29,1%  fylgjandi, 42,9% andvígir og 28% hvorki fylgjandi né andvígir.

 

Karlar eru greinilega hlynntari þessum hugmyndum en konur og fólk á höfuðborgarsvæðinu er ívið hlynntara hugmyndunum en landsbyggðarbúar. Stuðningur er mestur hjá fólki með fjölskyldutekjur á bilinu 550-799 þúsund krónur á mánuði en minnstur hjá þeim sem hafa undir 250 þús. krónum í fjölskyldutekjur.