Yfirnefnd Mannréttindadómstólsins í Strassborg hefur hafnað beiðni íslenska ríkisins um að taka fyrir bótaþáttinn í dómi sem dómstólinn kvað upp í máli sem fyrrverandi sjómaður höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna skerðingar á lífeyrisréttindum hans. Áður hafði bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands dæmt honum í óhag.
Upphaf málsins er að árið 1978 slasaðist sjóðfélagi í Lífeyrissjóði sjómanna um borð í togara og var hann metinn til 100% örorku til fyrri starfa sem sjómaður. Árið 1994 voru gerðar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna sem urðu til þess að allar bótagreiðslur til hans úr Lífeyrissjóði sjómanna féllu niður, þar sem hann var talinn geta unnið öll almenn störf í landi. Sjóðfélaginn undi ekki þessum breytingum og höfðaði mál, fyrst fyrir héraðsdómi, svo Hæstarétti og loks Mannréttindadómstóli Evrópu.
Í október komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu með því að fella niður örorkulífeyrisgreiðslur hans hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Voru honum dæmdar 75 þúsund evrur vegna fjárhagstjóns, 1.500 evrur vegna annars tjóns og 20 þúsund evrur í málskostnað. Þá samsvaraði upphæðin um átta milljónum íslenskra króna. Íslenska ríkið ákvað að vísa bótaþætti dómsins til yfirdeildarinnar á þeim grundvelli að sjóðfélaginn hefði ekki orðið fyrir fjárhagstjóni af völdum lagabreytingarinnar. Stærstum hluta mála sem vísað er til yfirdeildarinnar er vísað frá.